Erlent

Látlaus viðhöfn á flugvellinum í Varsjá

Lík Lech Kaczynski forseta Póllands var flutt með pólskri herflugvél til heimlandsins í dag. Látlaus viðhöfn var á flugvellinum í Varsjá, höfuðborg Póllands, þegar hermenn báru kistu forsetans út úr flugvélinni. Helstu ráðamenn landsins voru viðstaddir og hermenn stóðu heiðursvörð. Síðan var ekið með kistuna frá flugvellinum í gegnum miðborgina að forsetahöllinni.

Pólverjar minntust forseta síns og þeirra tuga manna sem fórust með honum í flugslysinu í Rússlandi í gær, með tveggja mínútna þögn í morgun. Þúsundir landsmanna stóðu kyrr á götum úti til að votta Kaczynski forseta landsins virðingu sína ásamt þeim 96 sem fórust í flugslysinu sem varð nærri Smolensk í vesturhluta Rússlands í gær. Fjölmargir söfnuðust einnig saman fyrir utan forsetahöllina í Varsjá. Þá hafa þúsundir Pólverja tekið þátt í kyrrðarstundum sem haldnar hafa verið í kirkjum landsins til að minnast forsetans.

Vladímir Pútín, forsætisráðherra Rússlands, hefur lýst því yfir að hann muni persónulega fylgjast með rannsókn á flugslysinu. Flest bendir til að mistök flugmanna hafi orsakað slysið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×