Skoðun

Vituð ér enn…

Í Morgunblaðinu 22. nóvember 2001 birtist eftirfarandi eftir greinarhöfund, m.a:

„Undanfarinn áratug hefir ríkt mikil árgæzka til lands og sjávar á Íslandi, og þjóðinni nýzt vel til framtaks og framfara á flestum sviðum. Þá árgæzku vilja stjórnvöld alla eigna sér; og helzt það uppi. Látum það vera, en þá ættu þau í sama máta að axla ábyrgð á framhaldinu, þegar í baksegl slær.

Og skjótt skipast veður í lofti. Undanfarin þrjú, fjögur misseri hafa greinilega verið ný teikn á himni um snarbreytt veðurfar í efnahagsmálum. Válegustu einkennin eru ógnvænlegur viðskiptahalli, þreföldun verðbólgu og taumlaust gengishrun krónunnar.

Þessi teikn hafa verið öllum ljós, sem sjá vilja.

Því miður eru ráðamenn í ríkisstjórn ekki í þeirra hópi. Meðan óveðursskýin hrannast upp á fjármálahimni hafa þeir baðað sig í ímynduðu sólskini góðæris og engu skeytt um aðsteðjandi hættu. Aðalvopninu til að kyrra og hemja veður og vinda í fjármálum hefur ekki verið beitt, fjárlagavaldi löggjafarsamkomunnar. Þvert á móti hefur það verið meðhöndlað eins og sjálfsmorðstól.

Í stað lífsnauðsynlegs samdráttar í útgjöldum ríkisins hefir allt vaðið á súðum. Hækkun útgjalda milli áranna 2000 og 2001 stefnir í 20%, sem er olía á eld verðlags og verðþenslu. Og enn virðist ekkert lát ætla að verða á eins og sjá má á frumvarpi til fjárlaga, sem nú liggur fyrir alþingi. Vonandi að menn sjái að sér áður en kemur að afgreiðslu þess. Ef ekki fljóta menn sofandi að feigðarósi. Þetta eru dapurlegar blákaldar staðreyndir.

Hvernig má það vera að ríkisstjórnin láti þjóðarskútuna reka svo háskasamlega á reiðanum sem raun ber vitni? Er það kannski svo að ítrekaðar aðvaranir stjórnarandstöðunnar í alþingi banni þeim af fordildarsökum allar aðgerðir til viðreisnar?"

Við aðvörunum Þjóðhagsstofnunar brást ríkisstjórnin með því að leggja hana niður. Niðurstöður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem varaði alvarlega við þróun í efnahagsmálum, hafði hún að engu.

Og svo eru arftakar óráðsíumannanna að tala um „andvaraleysi".




Skoðun

Sjá meira


×