Skoðun

Um málfar og umburðarlyndi

Sú skoðun er býsna útbreidd að umburðarlyndi eigi ekki við í málfarsefnum. Umræður í fjölmiðlum og á netinu sýna þetta glöggt. Þátturinn Daglegt mál í Ríkisútvarpinu er enn á svipuðum nótum og þegar hann hóf göngu sína fyrir rúmlega hálfri öld. Hlustendur eða spyrlar vilja fá staðfestingu á því að tiltekið atriði sé vont eða rangt og láta umsjónarmann skera úr um vafaatriði. Vangaveltur um tilbrigði í málinu eða hugsanlegar skýringar á þeim eiga sjaldnast upp á pallborðið. Árangurinn af þessu starfi virðist þó heldur takmarkaður því að enn eru á dagskrá sömu mál og forðum: Fólk segir Ég talaði við Guðrúnu Jónsdóttir í staðinn fyrir Ég talaði við Guðrúnu Jónsdóttur, Strákunum vantar pening í stað Strákana vantar pening og þar fram eftir götunum. Þjóðin virðist hreinlega ekki vera að ná þessu!

Eiður Guðnason skrifar nær daglega um ambögur í fjölmiðlum á fjölsóttri bloggsíðu og þar eru sömu atriðin nefnd aftur og aftur. Á síðu Málræktarklúbbsins á netinu eru menn óþreytandi við að benda á það sem miður fer í málnotkun. Margir íslenskukennarar slá á svipaða strengi. En allt kemur fyrir ekki. Sú spurning hlýtur að vakna hvort eitthvað sé bogið við baráttuaðferðina eða jafnvel baráttumálin sjálf.

Staðnaður hugsunarháttur

Sennilega eru flestir sammála um að það sé mikils um vert að varðveita íslenskt málkerfi í megindráttum og efla notkun málsins á sem flestum sviðum. Frá sjónarhóli málnotenda má segja að hæfnin til að tjá sig skilmerkilega í töluðu og rituðu máli sé mikilvægust. Þetta á auðvitað almennt við en skiptir sérstaklega miklu máli fyrir þá sem hafa á einhvern hátt atvinnu af því að nota málið, s.s. kennara, fjölmiðlamenn og leikara. Þeir þurfa að geta flutt mál sitt skýrt og áheyrilega, búa yfir ríkulegum orðaforða og hafa trausta tilfinningu fyrir viðeigandi stíl og málsniði.

Ef vel á að vera þurfa þeir líka að vita hvaða fyrirbæri eru óvinsæl í málsamfélaginu - hvort sem ástæður þeirra óvinsælda eru maklegar eða ekki - og reyna að sneiða hjá þeim. Viti menn ekki hvaða málatriði hafa verið brennimerkt eiga þeir á hættu að verða að athlægi. Þeir álitsgjafar sem ganga harðast fram í að skilgreina ýmsar útbreiddar málvenjur sem „málvillur" eiga sinn þátt í þessu.

Raunar má halda því fram að sú málumvöndun sem mest er stunduð, undir merkjum málvöndunar og málræktar, sé ekki aðeins til marks um staðnaðan hugsunarhátt heldur vinni gegn markmiðum um bætta málnotkun því að athyglin beinist fyrst og fremst að því neikvæða.

Bókstafstrú

Málfarsumræðan einkennist mjög af eins konar bókstafstrú. Til dæmis er algeng hugmynd að það sem ekki finnist í orðabókum eða handbókum hljóti að vera vitlaust. Samkvæmt því er rétt að segja Hann rústaði íbúðina af því að orðabókin gefur slík dæmi en Hann rústaði íbúðinni er talið rangt mál þó að það sé afar útbreitt og samræmist betur máltilfinningu margra. Ef ekki er hægt að fletta upp sögninni torfþekja í orðabók er hún „ekki til" og þá skiptir engu hvort hún er gagnsæ og rétt mynduð eða ekki. Sögnin dúkleggja er í orðabók en parkettleggja ekki. Er parkettleggja þá ekki til? Tilbrigði í máli eru jafnan talin óæskileg. Annaðhvort segir maður Japanar eða Japanir. Að viðurkenna báðar orðmyndir er „frjálslyndi á skökkum stað" eða „reiðareksstefna".

Þá taka þeir sem predika málfarslega bókstafstrú sjaldnast mið af samhengi eða aðstæðum. Menn verða t.d. miður sín ef íþróttafréttamaður í beinni útsendingu talar ekki eins og upp úr bók.

Margt af því sem málumvöndunarmenn „leiðrétta" stenst enga skoðun. Bogi Ágústsson fréttamaður var t.d. gagnrýndur nýlega fyrir að segja Þau voru skyld að gera þetta í stað Þeim var skylt eða Þau voru skyldug.

Höfundur Njálu, sá frægi málskussi og ambögusmiður, segir í 144. kafla: „Síðan báru þeir kviðu þá alla er þeir voru skyldir að bera til allra saka og fór það löglega fram." Í Íslenskri hómilíubók segir enn fremur: „Skyldur er sá hver til að kenna öðrum heil ráð, er Guð lér hyggindi til of það fram, sem annar kann sér, hvort er hann er lærður eða ólærður." Um síðarnefndu bókina sagði Jón Helgason prófessor: „Óvíða flóa lindir íslenzks máls tærari en í þessari gömlu bók."

Fordómalaus umfjöllun

Það er ekkert við því að segja þótt kappsömum áhugamönnum um íslenskt mál verði á í messunni en þeir sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar um nútímamál verða að geta fjallað um málfar á upplýsandi og fordómalausan hátt og leitast við að varpa ljósi á mismunandi tilbrigði málsins. Fyrir 50 árum var álitsgjöfum vorkunn að því leyti að litlar rannsóknir höfðu verið gerðar á samtímamálinu en nú á það ekki lengur við.

Í starfi mínu sem málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins fæ ég oft gagnlegar ábendingar um hæpnar beygingarmyndir og orðaval. Aftur á móti fæ ég sárasjaldan kvartanir um að erfitt hafi reynst að skilja tiltekna frétt eða pistil. Þetta hefur komið mér nokkuð á óvart því að mínu mati er ekki síður þörf á úrbótum í þeim efnum. Krafan um markvissa og skýra framsetningu er hins vegar ekkert sérstaklega hávær úti í samfélaginu.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×