Erlent

Dönsk sérsveit kemur í veg fyrir sjórán

Dönsk sérsveit kom í veg fyrir að sjóræningjar næðu flutningaskipi á Aden flóa á vald sitt í dag. Sveitin er af herskipinu Absalom sem er við gæslu á flóanum sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna tíðra sjórána sómalskra sjóræningja. Þegar skipherra danska skipsins heyrði neyðarkall frá flutningaskipinu Ariella sendi hann þyrlu af stað til að kanna málið.

Þá kom í ljós að hópur sjóræningja hafði ráðist um borð í skipið og reyndi að ná því á sitt vald. Áhöfnin hafði hinsvegar lokað sig inn í læstum klefa og því var enginn við stýrið á flutningaskipinu.

Skipherrann sendi sérsveitina að skipinu í léttum báti og fór hún um borð og náði stjórn á skipinu. Áhöfnin var heil á húfi en sjóræningjarnir höfðu forðað sér frá borði þegar þeir sáu Danina nálgast. Afar sjaldgæft er að herskip á svæðinu skerist í leikinn þegar sjóræningjar hafa á annað borð látið til skarar skríða þar sem það er talið setja áhöfn skipanna sem fyrir árásinni verða í aukna hættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×