Skoðun

Á móti íslenskum bókmenntum?

Kristín Steinsdóttir og Jón Kalmann Stefánsson skrifar
Trúlega vita þeir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, AGS, lítið um íslenskar bókmenntir. Og sennilega vita þeir minna en ekki neitt um íslenskan bókamarkað. Þess vegna hafa þeir líklega bent íslenskum stjórnvöldum á að snarhækka virðisaukaskatt á bækur úr 7% og upp í 25,5%. Reikniforritin þeirra segja kannski að það sé prýðishugmynd.

Gott og vel.

Við deilum ekki um hagfræði eða meðferð talna en það þarf hreint engan hagfræðing til að gera sér grein fyrir því hvernig færi fyrir íslenskum bókamarkaði ef virðisaukaskattur yrði hækkaður, hvað þá svona glæfralega. Það högg myndi stórskaða hann og með tímanum ganga af honum dauðum. Bækur hækkuðu umtalsvert í verði, og það þýddi minni sölu, sem á móti þýddi minnkandi útgáfu, sumsé, færri bækur. Færri skáldsögur, færri ljóð, færri ævisögur, færri fræðibækur, færri skólabækur. Fjöldi fólks myndi missa vinnu, fólk hjá bókaútgáfum, í prentsmiðjum, bókaverslunum, dreifingaraðilar og prófarkalesarar að ógleymdum höfundum.

Færri bækur á markaði þýddi rýrari endurnýjun höfunda, dvínandi fjölbreytni sem kæmi niður á almennu læsi. Hvað um lestrarhvetjandi verkefnin sem hafa verið í gangi undanfarin ár með góðum árangri? Voru þau ekki liður í því að snúa vörn í sókn þegar blikur voru á lofti varðandi lestur íslenskra barna? Og hvað með Reykjavíkurborg sem stefnir á að verða bókmenntaborg Unesco? Er eitthvert vit í bókmenntaborg án gróskumikillar bókaútgáfu?

Þegar stjórnvöld í Lettlandi hækkuðu virðisaukaskatt á bókum úr 5% upp í 21% dróst heildarvelta bókaútgáfu þar í landi saman um 35%, með tilheyrandi áföllum. Þegar stjórnvöld drógu hækkunina til baka varð ljóst að bókaútgáfan hafði beðið varanlega hnekki.

Reynsla Letta ætti að vera Íslendingum víti til varnaðar. Og samt er ekki nema hálf sagan sögð. Við erum þjóð vegna þess að við tölum íslensku og vegna þess að hér er öflugt menningarlíf. Ef bókaútgáfa dregst saman þá bitnar það á menningarlífinu. Áhrifin kæmu strax í ljós. Íslensk tunga myndi láta undan síga, hægt, en því miður örugglega. Og hvað er smáþjóð án síns tungumáls?

Við ætlum ekki út í deilur um AGS á Íslandi, hvort afskipti sjóðsins séu böl eða bót, en hugdettan um að hækka virðisaukaskatt á bækur er ekki bara vond, hún er hreinlega fjandsamleg menningu okkar. Tillaga af þessu tagi virðist vera sett fram af mikilli vanþekkingu, en ríkisstjórn Samfylkingar og VG á að vita betur. Verður að vita betur. Eða mikið mega þau Jóhanna, Steingrímur, Katrín og aðrir ráðherrar vera afvegaleidd ef þau svo mikið sem hugleiða þessa tillögu AGS.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×