Skoðun

Metan í einum grænum

Sveinbjörn Ragnar Árnason skrifar
Félagi minn lét setja metangas orkugjafa í ameríska pallbílinn sinn um daginn. Nú keyrir hann um á grænni orku. Ameríski pallbíllinn nær allt að 300 km á hleðslunni. Sparnaðurinn er umtalsverður, rúmlega helmingi ódýrara er að aka á metangasi miðað við bensín-orkugjafann. Ef þú verður metanlaus, ýtir þú á einn takka í mælaborðinu á bílnum þínum og þú skiptir yfir á bensín-orkugjafann eins og ekkert væri.

Metan er mengunarlaus orkugjafi, við brunann verður nánast ekkert eftir af skaðlegum efnum fyrir andrúmsloftið.

Félagi minn bauð mér á rúntinn. Hann var stoltur þegar hann sagði mér að nú væri hann að keyra á „prumpinu". Ekki var að heyra annað en að venjulegt vélarhljóð bærist úr vélarsal pallbílsins. Það tekur ca. 6-7 mánuði að borga fjárfestinguna upp miðað við venjulega notkun heimilisbíls. Því miður eru bara tvær áfyllingarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað á að fara í átaksverkefni og koma upp áfyllingarstöðvum hringinn í kringum landið. Hvetja á bíleigendur til að metanvæða bílaflotann.

Geta má þess að bíllinn notast við metangasið óháð bensín-orkugjafanum og öfugt að sjálfsögðu. Bílvélin ræsir sig upp á bensínorkugjafanum og er á því eða þar til vélin nær ca 60 gráðu hita. Þá skiptir hann sjálfkrafa yfir á metan, sé hann stilltur þannig.

Undirritaður er sannfærður um að metan sé málið. Það er gjaldeyrissparandi, mengar nánast ekki neitt og er miklu ódýrari orkugjafi fyrir bíleigendur. Með því að styðja við metannotkun á Íslandi er verið að skapa meiri atvinnu og eftir breytingu er bílinn þinn „grænn" og nýtur sömu forréttinda og aðrir grænir bílar.

Undirritaður skorar á stjórnvöld að búa til ábatakerfi fyrir bíleigendur og þá sem sérhæfa sig í ísetningu á slíkum búnaði. Hægt væri t.d. að veita endurgreiðslu á virðisaukaskatti til þeirra sem breyta bílum sínum yfir á metangas.

Ef sameiginlegt átak Íslendinga væri að koma 5% bifreiða landsmanna á metangas næstu 5 ár væri hægt að spara umtalsvert í gjaldeyri fyrir þjóð sem er með gjaldeyrishöft. Geta má þess að talið er að ca. 10.000 evrur sparast við hvern bíl sem breytt er í metanorkugjafa á Íslandi.

Keyrðu á umhverfisvænni innlendri orku, það sparar gjaldeyri, eykur atvinnu, mengar ekki og sparar peninginn fyrir bíleigandann.

Metan í einum grænum!




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×