Lífið

Ástin eins alls staðar

Kristín María Stefáns­dóttir áhugaljósmyndari opnar sýningu sem er tileinkuð réttindabaráttu samkynhneigðra.fréttablaðið/rósa
Kristín María Stefáns­dóttir áhugaljósmyndari opnar sýningu sem er tileinkuð réttindabaráttu samkynhneigðra.fréttablaðið/rósa
Kristín María Stefánsdóttir áhugaljósmyndari opnar ljósmyndasýninguna A rose by another name… á laugardaginn.

Sýningin er tileinkuð réttindabaráttu samkynhneigðra og hefur Kristín fest á filmu sambönd samkynhneigðra þar sem mismunandi sögur liggja að baki.

„Mér hefur aðallega blöskrað hvernig komið hefur verið fram við samkynhneigða sem sýna ást sína opinberlega en ég á marga vini sem hafa fundið fyrir miklum fordómum frá ókunnugu fólki,“ segir Kristín en tilgangur sýningarinnar er að sýna fólki að ástin er eins alls staðar. „Sem þá geta vinkonur mínar ekki farið út að borða og kysst án þess að þær finni að fólk í kring pískri og glápi,“ segir Kristín María en henni finnst þess konar fordómar vera óviðunandi í íslensku samfélagi í dag sem er þó framar öðrum löndum í réttindum samkynhneigðra.

„Ég tók myndir af samböndum og reyndi að fanga á filmu augnablik sem sýna ástina með eðlilegum hætti,“ segir Kristín María en á sýningunni mun sagan á bak við einstaklingana á myndunum fylgja með hverri mynd. „Það er alltaf einhver saga sem fylgir samböndum, hvernig fólk kynntist og svoleiðis. Það gefur myndunum líf og fólk tengist þeim betur.“

Kristín María er ekki lærður ljósmyndari en hefur alltaf haft mikinn áhuga á ljósmyndun. „Í sýningunni sameina ég bæði áhugamálin mín, mannréttindi og ljósmyndun,“ segir Kristín að lokum en hún stefnir á nám í ljósmyndun í haust. Sýningin verður opnuð kl. 20 á laugardagskvöldið á skemmtistaðnum Barböru.-áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.