Lífið

Hera fær ókeypis Eurovision-myndband

Óvænt gjöf, Hera Björk fær ókeypis Euro­vision-myndband frá nemendum Kvikmyndaskólans en þar hefur hún kennt söng.
Óvænt gjöf, Hera Björk fær ókeypis Euro­vision-myndband frá nemendum Kvikmyndaskólans en þar hefur hún kennt söng.

„Nemendur og starfsfólk felldu eiginlega bara tár yfir þessum fréttum, að Hera gæti ekki gert tónlistarmyndband og ákváðu bara að ráðast í gerð slíks myndbands,“ segir Elísabet Bjarkardóttir, framkvæmdastjóri Kvikmyndaskóla Íslands. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá ákváðu þau Hera Björk og Örlygur Smári að gera ekki myndband við Eurovision-framlag Íslands, Je ne sais quoi, eins og háttur hefur verið á undanfarin tólf skipti. Ástæðan var einfaldlega peningaleysi. En nú hafa nemendur Kvikmyndaskólans ákveðið að koma Heru til hjálpar og gera eitt stykki tónlistarmyndband frítt.

Hera hefur verið að kenna söng við Kvikmyndaskólann og vildu nemendurnir ólmir þakka henni kærlega fyrir góða kennslu. Elísabet segir enn ekki komið ljós hvenær myndbandið verði gert. „Það verður tekin ákvörðun um það á fundi klukkan hálf fimm í dag [gær] og kannski byrjum við bara strax eða á morgun [í dag],“ segir Elísabet.

Hera var að vonum himinlifandi þegar Fréttablaðið flutti henni þessar fréttir.

„Guð minn góður, þetta er yndislegt, vá, geðveikt, ég er bara orðlaus,“ sagði Hera. „Ég ætla að skála í hvítvíni fyrir þeim. Við finnum eitthvað skemmtilegt út úr þessu,“ bætti Hera við. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.