Erlent

Herinn í Chile hjálpar loks til

hermenn í chile Koma færandi hendi til borgarinnar Concepcion á jarðskjálftasvæðinu í Chile.nordicphotos/AFP
hermenn í chile Koma færandi hendi til borgarinnar Concepcion á jarðskjálftasvæðinu í Chile.nordicphotos/AFP

Herinn í Chile er nú kominn á fulla ferð í björgunarstörf eftir að hafa varið fyrstu dögunum eftir jarðskjálftann í að stöðva gripdeildir og sjá til þess að friður ríki í borgum og bæjum jarðskjálftasvæðisins.

„Loksins!" hrópar almenningur sem áður fyrr átti frekar því að venjast að sjá hermenn landsins í hlutverki ógnvalda sem af fullri grimmd vörðu einræðisstjórn Aug­usto Pinochets.

Þau tuttugu ár sem lýðræði hefur ríkt í landinu hefur herinn ekki tekið að sér lögreglustörf, hvað þá hjálpar- og björgunarstörf.

Nú ganga hermennirnir hins vegar stoltir til verka, ánægðir með öll brosin sem mæta þeim hvert sem þeir koma, með mat og vatn handa fólki í götum þar sem hús eru meira og minna hrunin.

Sumir gagnrýndu þó að fyrsta gatan í borginni Concepcion sem hermennirnir fóru að sinna er gata þar sem fjölskyldur hermanna búa.

„Öll þessi húsalengja tilheyrir hernum," segir Yanira Cifuentes, ein af íbúunum við götuna General Novoa Avenue. Hún segir eiginmann sinn herforingja.

Hún segir að hjálpin sé sér kærkomin, en viðurkennir að íbúarnir þarna hafi ekki liðið hungur vegna þess að þeir hafi haft aðgang að mat hjá hernum.

Herinn segir að stjórnvöld á hverjum stað ráði forgangsröðun í hjálparstarfinu, en íbúar létu sumir í ljós reiði gagnvart borgaryfirvöldum fyrir að láta auðugri hverfi ganga fyrir um matvælaaðstoð.

„Hjálpin á fyrst að berast þeim sem ekkert hafa," sagði Louis Sarzosa, tæplega fimmtugur maður í Concepcion. „Þeir sem betur eru staddir fá alltaf allt fyrst en þeir sem hafa ekkert eru skildir út undan."

Matvæli frá stjórnvöldum byrjuðu að berast til smærri byggðarlaga í nágrenni Concepcion á þriðjudag, og voru þyrlur notaðar til að dreifa þeim.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×