Handbolti

Sturla: Verð að nýta þau tækifæri sem ég fæ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Sturla Ásgeirsson í leiknum á móti Rússlandi.
Sturla Ásgeirsson í leiknum á móti Rússlandi. Mynd/DIENER
Sturla Ásgeirsson átti frábæra innkomu með íslenska landsliðinu gegn Rússlandi á Evrópumeistaramótinu í handbolta í gær. Ísland vann leikinn örugglega, 38-30, og skoraði Sturla fimm mörk úr fimm skotum.

„Það var stórskemmtilegt að fá að spila sinn fyrsta leik á mótinu. Staðan í leiknum var þó ekki erfið þegar ég kom inn enda Rússarnir greinilega engan veginn klárir í leikinn," sagði Sturla í viðtali við Vísi í dag.

„Það var líka ágætt að geta hvílt lykilmenn. Mér fannst við hinir sem komu inn skila okkar mjög vel og ég get verið sáttur við mína frammistöðu. Ég nýtti þessi færi sem ég fékk vel."

Þó svo að Sturla hafi ekkert spilað með liðinu til þessa á mótinu var ekki að sjá að hann væri eitthvað ryðgaður.

„Við erum búnir að æfa mjög vel og ég hef verið í þessu hlutverki nokkuð lengi. Ég verð í því áfram á meðan að Gaui [Guðjón Valur] er að spila eins og engill. Maður verður að nýta þau fáu tækifæri sem ég fæ og sýna að maður eigi skilið að vera í liðinu og eigi erindi í það."

Þetta er í annað sinn sem Sturla tekur þátt í stórmóti í handbolta með íslenska landsliðinu en það fyrsta var á Ólympíuleikunum í Peking.

„Menn voru að skjóta því að mér að ég ætti bara að hætta eftir Ólympíuleikana enda strax kominn með verðlaun. En ég hef mjög gaman af því að taka þátt í þessu enda frábær stemning í hópnum."

Sturla á von á hörkuleik gegn Noregi á morgun.

„Það verður allt undir hjá báðum liðum. Mér skilst að þeir verði að vinna með fjórum mörkum og treysta á að Danir tapi sínu leik og þá eru þeir komnir áfram. Þetta verður því brjálaður leikur sem bæði lið vilja vinna."

„Við ætlum okkur að sjálfsögðu að tryggja okkur áfram með sigri í þessum leik. Það kemur ekkert annað til greina."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×