Lífið

Fagaðilar gagnrýna tískuviku

Halla Helgadóttir hjá Hönnunarmiðstöðinni og Félag fatahönnuða eru sammála um að ekki hafi verið faglega staðið að Iceland Fashion Week hingað til.
Fréttablaðið/valli
Halla Helgadóttir hjá Hönnunarmiðstöðinni og Félag fatahönnuða eru sammála um að ekki hafi verið faglega staðið að Iceland Fashion Week hingað til. Fréttablaðið/valli
„Það er vafasamt að hægt sé að halda viðburð með þessu nafni án samstarfs við Fatahönnunarfélag Íslands og starfandi fagfólk í greininni,“ segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvarinnar, en hún er að vísa í Iceland Fashion Week sem verður haldin í byrjun næsta mánaðar.

Mikið fár var vegna viðburðarins í fyrra vegna ósættis milli þátttakenda og stjórnanda hátíðarinnar, Kolbrúnar Aðalsteinsdóttur. Erlendir fjölmiðlamenn fóru ófögrum orðum um tískuvikuna og sagði blaðamaðurinn Cator Sparkz í samtali við Fréttablaðið að hátíðin hefði verið hreint út sagt hræðileg. Halla vill meina að hátíðin hafi verið kynnt á fölskum forsendum sem íslensk tískuvika og stórviðburður á sviði fatahönnunar á Íslandi. „Ég hef áhyggjur af því að þessi hátíð gefi alranga mynd af því sem er að gerast í íslenskri fatahönnun í dag.“

Halla segist hafa fengið mörg símtöl undanfarið þar sem fatahönnuðir hafa áhyggjur af Iceland Fashion Week. „Þessi viðburður er ekki haldinn í neinu samstarfi við okkur. Eftir neikvæða umfjöllun á erlendri grund eftir síðustu hátíð finnst mér mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að þessi viðburður hefur í raun ekkert með íslenska tískuviku að gera,“ segir Halla og bætir við að það sé samdóma álit Hönnunarmiðstöðvarinnar og Félags fatahönnuða að ekki hafi verið faglega staðið að Iceland Fashion Week hingað til.

„Þetta mál snýst um ímynd og fagmennsku heillar atvinnugreinar sem er ung og viðkvæm en veltir nú þegar milljörðum árlega og er í örum vexti hér á Íslandi. Því miður rugla menn alltof oft saman „amatörisma“ og alvöru hönnun sem gefur mjög ranga mynd af þeim uppgangi sem er í hönnun á Íslandi í dag,“ segir Halla að lokum. - áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.