Handbolti

Hreiðar og félagar í umspilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson leikur með Emsdetten.
Hreiðar Levý Guðmundsson leikur með Emsdetten. Nordic Photos / Bongarts
Keppni í norður- og suðurriðlum þýsku B-deildarinnar í handbolta lauk í gær en þá fór fram lokaumferðin í báðum riðlum.

Hamm og Friesenheim voru bæði búin að tryggja sér efsta sæti riðlanna og þar með sæti í þýsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Emsdetten varð í öðru sæti norðurriðilsins og Bergischer HC í öðru sæti suðurriðilsins. Þessi tvö lið munu nú mætast í umspili um að fá að mæta liðinu sem verður í sextánda og þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar um laust sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Emsdetten og Bergischer HC mætast næstu tvo laugardaga, heima og að heiman.

Hreiðar Levý Guðmundsson leikur með Emsdetten en nú í sumar mun Patrekur Jóhannesson taka við þjálfun liðsins. Þá mun einnig Fannar Friðgeirsson, leikmaður Vals, einnig ganga til liðs við félagið.

Emsdetten vann í gær sigur á Nordhorn á útivelli, 32-31. Einar Ingi Hrafnsson skoraði sex mörk fyrir Nordhorn í leiknum en liðið endaði í fjórðs sæti norðurriðilsins.

Ahlener, lið Ólafs Bjarka Ragnarssonar, varð í sjöunda sæti sama riðils með 33 stig. Ólafur Bjarki skoraði tvö mörk er liðið vann Altenholz í lokaumferðinni í gær, 36-31.

EHV Aue vann góðan sigur á Neuhausen, 28-26, í lokaumferð suðurriðilsins í gær. Agnar Jón Agnarsson var markahæsti leikmaður Aue í leiknum með níu mörk. Aue varð í þrettánda sæti riðilsins.

Eisenach, liðið sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, varð í tíunda sæti riðilsins en liðið tapaði í gær naumlega fyrir Erlangen, 25-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×