Skoðun

Framundan er fimbulkuldi

Hannes Friðriksson skrifar

Sú fjárhagsáætlun sem foystumenn meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur nú lagt fram fyrir árið 2011 er þungur áfellisdómur yfir þeirra eigin störfum og stefnu. Þar er boðaður mikill niðurskurður , auk þess sem ekki er tekið tillit til fjölda óvissuþátta sem fyririsjáanlegir eru.

Fjárhagsáætlun þessi er í hróplegu ósamræmi við þær skýringar og loforð sem forystumenn sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hafa gefið undanfarin ár. Og staðfestir í raun það sem áður hefur verið sagt. Hér stendur ekki steinn yfir steini, og fjárhagsstaða Reykjanesbæjar með þeim hætti að ekki verður lengur við unað.

Meginstef fjárhagsáætlunarinnar er sparnaður, sem á næsta ári mun koma fram í nær allri þjónustu bæjarins. Þannig er ljóst að nú í fyrsta sinn veður lögbundin þjónusta undir viðmiðunarmökum , og sú lögbundna fjárhagsaðstoð til þeirra er illa standa mun verða með því lægsta á landinu öllu. Segja má að ekki sé mikill sómi falin í því.

Framlög til menningarmála og íþóttastarfs verða skert stórlega, og það þrátt fyrir að á undanförnum árum hafi verið lagt til hliðar 1 milljarður króna í Manngildissjóð sem ætlað var til að sinna þeim málum. Þeim sjóð var eytt í hítina. Til greiðslu annarra skulda en til var ætlað. Og án þess að slíkt hafi nokkru sinni verið sjáanlega samþykkt í bæjarrráði eins og reglur sjóðsins mæltu þó fyrir um.

Afleiðingar fjármálastjórnar forystumanna meirihluta sjálfstæðismanna undanfarin ár eru nú að koma í ljós. Framundan er fimbulkuldi. Sem skellur á íbúum Reykjanesbæjar af fullum þunga á næsta ári. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Skuldir bæjarsjóðs hafa fimmfaldast frá árinu 2002, úr 5 milljörðum króna í 29 milljarða króna á árinu 2010 . Án þess að séð verði að eitthvað það standi eftir ,sem sannanlega bæti hag bæjarbúa.Eftir standa skuldir sem nema um það bil 400% af tekjum bæjarins. Á bak við leiktjöldin stendur bær í rústum.

Skuldir hafnarinnar sem árið 2002 voru 1,2 milljarðar eru nú tæplega 6 milljarðar króna. Án þess að fyrirséð sé að höfnin komi til með að standa undir þeirri skuld að óbreyttu og til framtíðar litið.. Lánadrottnar hafnarinnar standa í röðum til þess að fá úrlausn sinna mála, og óvíst um afdrif þeirra mála.

Öllum er okkur ljóst að óskabarn forystumanna meirihlutans Fasteign er komin að fótum fram og bærinn hefur ekki lengur efni á að greiða þá leigu sem krafist er, um leið og Fasteign hefur ekki tök á að bjóða lægri leigu sem bærinn stendur undir í ljósi fjárhagstöðu sinnar . Leitað er að lausnum en ljóst að þar verður erfitt um vik sökum sameiginlegrar ábyrgðar eigendanna á skuldum fyrirtækisins. Þar vega skuldir vegna bygginga Háskólans í Reykjavík þungt, og jafnvel möguleiki á að þær gætu lent á íbúum Reykjanesbæjar í takt við eignarhluta bæjarins í Fasteign. Það er undir vilja lánadrottnanna komið.

Fasteignir Reykjanesbæjar eiga við rekstrarvanda að etja, um leið og Vikingaheimar og Kalka eru komin í greiðslufall. Ljóst er sá rekstur stendur ekki undir þeim skuldum sem til hefur verið stofnað, og bæjarsjóður mun ekki geta hjálpað til.

Öllum og sérstaklega meirihlutanum ætti að vera orðið ljóst að ekki verður hægt að hagræða eða skera meira niður en nú er gert ráð fyrir. Eftir standa gríðarlegar skuldir sem ljóst er af fjárhagsáætluninni að bærinn ræður ekki við. Það er ljóst að þær óraunhæfu hugmyndir forustumanna meirihlutans um 100 milljón króna hagnað af rekstri bæjarsjóðs standa hvorki undir greiðslu skuldanna eins og þær liggja nú fyrir, né því óvænta og ófyrirséða. Hvað ætla forystumenn meirihluta sjálfstæðismanna að gera við því ? Það kemur ekki fram í fjárhagsáætluninni.






Skoðun

Sjá meira


×