Skoðun

Á að hrekja heimilislækna úr heilsugæslunni?

Elínborg Bárðardóttir skrifar

Ég hef áhyggjur af skorti á framtíðarsýn heilsugæslu á Íslandi. Í umræðu um fyrirsjáanlegan skort á heimilislæknum hafa fleiri en ein stétt heilbrigðisstarfsmanna stigið fram og tjáð hug sinn um að taka að sér hluta af vinnu lækna í móttöku sjúklinga, greina sjúkdóma og meðhöndla. Allar þessar stéttir vísa til reynslu erlendis frá og vilja vinna sjálfstætt en minnast ekki á að erlendis er slík móttaka venjulega undir sjórn og á ábyrgð lækna.

Mjög mikilvægt er að ráðamenn láti ekki slá ryki í augu sér með skammtímalausnum eða skyndiplástrum og bútasaum í heilsugæslu á kostnað varanlegra lausna.

Framtíð heilsugæslunnar felst nú sem áður í vel menntuðum heimilislæknum sem geta þjónað hlutverki sínu sem persónulegur læknir sem þekkir vel til skjólstæðinga sinna og fjölskyldna þeirra. Heimilislæknir sem vinnur teymisvinnu skjólstæðingi sínum til heilla þar sem samfella og góð samskipti og traust er haft að leiðarljósi.

Ég kalla eftir langtímahugsun og ábyrgð þingmanna og ráðherra í málefnum heilsugæslunnar og heimilislækninga og spyr: Af hverju voru árum saman engar nýjar stöður heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu á meðan öðrum sérfræðingum á samningi við tryggingarstofnun fjölgaði? Af hverju er heimilislæknum ekki heimilað að starfa sjálfstætt eins og öðrum sérfræðingum? Af hverju hafa námsstöður í heimilislækningum verið af skornum skammti þrátt fyrir viðvaranir Félags heimilislækna um nauðsyn þess að fjölga námsstöðum? Af hverju er ekki búið að setja á stofn aðgerðahóp til að snúa þessari óheillaþróun við og fjölga heimilislæknum? Ráðuneyti heilbrigðismála hefur í mörg ár talað um að efla þurfi heilsugæsluna, er ekki komin tími til að láta verkin tala?








Skoðun

Sjá meira


×