Erlent

Tryggir Grikkjum svigrúm

George 
Papandreou
George Papandreou

AP „Bæði Evrópa og Grikkland koma sterkari út úr þessari kreppu,“ segir George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, ánægður með að leiðtogar sextán Evrópusambandsríkja hafi ákveðið að koma Grikklandi til hjálpar í fjárhagsvandræðunum.

Papandreou segir reyndar langt í að Grikkir komist út úr erfiðleikum sínum, en samkomulag evruríkjanna sextán gefi landinu svigrúm til að vinna sig út úr vandanum með ströngum aðhaldsaðgerðum heima fyrir.

Á síðasta ári var fjárlagahalli Grikklands 12,7 prósent, en það er fjórum sinnum meira en reglur Evrópusambandsins leyfa.

Í tengslum við leiðtogafund Evrópusambands­ins í Brussel samþykktu evruríkin sextán, á sérstökum neyðarfundi á fimmtudag, að veita Grikkjum lán ef aðrir lánamöguleikar lokast.

Í gær styrktist evran nokkuð gagnvart dollar og vaxtamunur grískra og þýskra ríkisskuldabréfa minnkaði, sem er til marks um að heldur meira traust ríki nú á Grikklandi á fjármálamörkuðum.

Ýmislegt fleira var rætt á leiðtogafundi Evrópusambandsins, sem lauk í gær, þar á meðal loftslagsmálin og sáu leiðtogarnir sig neydda til að skipta um aðferð í alþjóðadeilum um þau. Í staðinn fyrir að þrýsta á önnur ríki um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda ætla þau að leggja áherslu á breytingar í smærri skrefum. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×