Erlent

Þarf að greiða fyrir réttarhöld yfir morðingja barna sinna

Bouchaib Moqadem er ekki skemmt yfir að þurfa að borga fyrir réttvísi yfir morðingja barna sinna.
Bouchaib Moqadem er ekki skemmt yfir að þurfa að borga fyrir réttvísi yfir morðingja barna sinna.

Belginn Bouchaib Moqadem fékk heldur sérkennilegan víxil heim til sín á dögunum. Belgíska ríkið ætlar að rukka hann um tæplega 73 þúsund evrur, eða 12 milljónir króna, sem er kostnaður ríkisins fyrir að sækja fyrrverandi eiginkonu hans til saka eftir að hún myrti öll börnin þeirra, fimm talsins, á meðan Moqadem var staddur erlendis.

„Mér býður við þessu," sagði Moqadem í viðtali við dagblaðið Le Soir og greint er frá á fréttavef BBC.

Eiginkona Moqadem var dæmd í lífstíðarfangelsi árið 2009 fyrir að myrða fjórar dætur og son þeirra. Belgíska ríkið reynir að endurheimta kostnaðinn vegna réttarhaldanna en eiginkona Moqadem á engan pening. Því endaði víxillinn hjá Moqadem.

Afsökun ríkisins er sú að peningurinn eigi að fást fyrir hlut eiginkonunnar í húsi þeirra hjóna.

Lögfræðingur Moqadem vill að ríkið afskrifi skuldina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×