Innlent

Rætt um transfitu og transfólk á Alþingi

Þingfundur hefst í dag klukkan hálftvö og eru tíu mál á dagskrá fundar. Þar á meðal má finna þingsályktunartillögu um transfitusýrur og aðra um transfólk.

Siv Friðleifsdóttir hefur lagt fram ályktun um hámarksmagn transfitusýra í matvælum og vill hún að Alþingi álykti að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja undirbúning að setningu reglna um að hámarksmagn transfitusýra í matvælum verði tvö grömm í hverjum hundrað grömmum af fitumagni vörunnar.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur hinsvegar lagt fram þingsályktunartillögu um réttarbætur fyrir transfólk þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera tillögur að úrbótum á stöðu transfólks (transgender) á Íslandi. Nefndin verði skipuð fulltrúum nokkurra ráðuneyta, hagsmunasamtaka transfólks og Amnesty International.

„Nefndin kanni lagalega og félagslega stöðu transfólks á Íslandi og geri tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að hvers kyns misrétti gagnvart transfólki hverfi hér á landi og full mannréttindi þess verði tryggð," segir í ályktun Guðfríðar Lilju.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×