Skoðun

Lofaði Samfylking að svíkja?

Gísli Marteinn Baldursdóttir skrifar

Capacent spurði borgarbúa í október hvaða þjónustu Reykjavíkurborg þyrfti helst að bæta. Það atriði sem flestir nefndu var að það þyrfti að bæta almenningssamgöngur, tæp 16%. Ég hef ekki séð neina umfjöllun um þessar merkilegu niðurstöður. Meira en þúsund Reykvíkingar voru í úrtakinu og 77% svöruðu. Númer tvö á listanum yfir þjónustu sem Reykjavíkurborg þyrfti helst að bæta var þjónusta við eldri borgara. Númer þrjú var svo: "Göngu-/hjólastígar/stuðningur við bíllausan lífsstíl." Tæp 13% nefndu það.

Það eru þess vegna heldur kaldar kveðjur sem meirihlutinn í Reykjavík sendir borgarbúum með því að skera niður þjónustu Strætó. Hækkun á fargjöldum og lélegri þjónusta er það sem borgarbúar fá, jafnvel þótt þeir séu á sama tíma látnir borga meira í sameiginlega sjóði Reykjavíkur. Þessi meirihluti lofaði því í málefnasamningi að "efla almenningssamgöngur og auka tíðni".

Í kosningaloforðum Samfylkingarinnar í vor sagði: "Strætisvagnar eiga að ganga á 10 mínútna fresti á álagstímum. Þeir ganga alla daga ársins." Ekkert hefur verið gert til að uppfylla þessi loforð, heldur eru framlög til Strætó verulega skorin niður í fyrstu fjárhagsáætlun þessa sama flokks. Þeir fáu dagar sem akstur hefur verið felldur niður eru áfram strætólausir, þótt Samfylkingin hafi komist til valda.

Síðast þegar Samfylkingin var í meirihluta í Reykjavík, í R-lista brallinu, var stöðugt talað um betri almenningssamgöngur. En mikill munur var á orðum og efndum. Á þeim tíma versnaði nefnilega þjónusta Strætó og farþegum fækkaði sífellt.

Undanfarið hafa hins vegar vaknað vonir um að þetta væri að breytast. Fleira fólk nýtir sér nú Strætó, þjónustan hefur batnað með auknum forgangi í umferðinni, góðu viðmóti vagnstjóra, merktum biðskýlum og nemakortum fyrir námsmenn, svo fátt eitt sé nefnt. Borgarbúar átta sig vel á mikilvægi almenningssamgangna, líka þeir sem ekki nota þær. Hver og einn fullur Strætó í morgunumferðinni er í raun að fækka bílum á götunni um 60-70, miðað við að notendur hans væru ella akandi. Það er auðvelt að sjá fyrir sér hversu slæmt ástandið væri á götunum ef Strætó nyti ekki við. En einmitt þegar jákvæð teikn virðast á lofti ákveður meirihlutinn í Reykjavík að ganga á bak orða sinna og skerða þjónustu Strætó.

Lofaði Samfylkingin líka að svíkja öll loforðin sín?






Skoðun

Sjá meira


×