Erlent

Sprengigos yfirvofandi á Filippseyjum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fjallið Mayon.
Fjallið Mayon.

Tæplega 45.000 manns dvelja nú í sérstökum búðum í Albay-héraðinu á Filippseyjum og bíða þess sem verða vill með eldfjallið Mayon.

Í allt eru það 9.000 fjölskyldur sem hafa ekki hugmynd um hvort þær muni nokkurn tímann snúa aftur til heimkynna sinna í nágrenni við eldfjallið Mayon sem er nú á suðupunkti og vara jarðvísindamenn við því að yfirvofandi gos gæti orðið svo öflugt að fjallið springi hreinlega.

Mayon er virkasta eldfjall Filippseyja og hefur gosið tæplega 50 sinnum síðan á 17. öld. Stórt svæði í kringum fjallið hefur verið lýst bannsvæði og er engum heimilt að fara þar um enda hafa yfirvöld virkjað viðbúnaðarstig fjögur sem táknar að sprengigos muni að öllum líkindum eiga sér stað í fjallinu á allra næstu dögum. Sést hefur þó til einhverra sem hafa laumast inn á svæðið til að hyggja að heimilum sínum þrátt fyrir að her og lögregla standi vörð allan sólarhringinn.

Miklar drunur berast nú frá fjallinu og síðasta sólarhring hefur jarðvísindastofnun Filippseyja mælt 1.942 jarðskjálfta sem tengjast eldsumbrotum þar og má glöggt sjá glóandi hraunkviku seitla í taumum niður fjallshlíðarnar. Fjallið er um 500 kílómetra suður af höfuðborginni Manila en eldvirkni er mikil á Filippseyjum. Eyjarnar standa á svokölluðum eldhring sem gerður er úr ótal misgengjum og teygir sig um Kyrrahafið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×