Innlent

Segja óþarft að hækka álögur

Sigðurður Magnússon Fyrrverandi bæjarstjóri Álftaness segir skuldir bæjarins ofmetnar og tekjur og eignir vanmetnar í nýrri skýrslu.
Fréttablaðið/Stefán
Sigðurður Magnússon Fyrrverandi bæjarstjóri Álftaness segir skuldir bæjarins ofmetnar og tekjur og eignir vanmetnar í nýrri skýrslu. Fréttablaðið/Stefán

„Við höfnum algjörlega þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram um hækkanir fasteignaskatta, útsvars og stórfellds niðurskurðar á þjónustu til að leysa rekstrarvanda sveitar­félagsins og vísum í því sambandi til boðaðra aðgerða ríkisstjórnar um auknar skattaálögur,“ segja bæjar­fulltrúar minnihluta Á-listans á Álftanesi.

Fulltrúar Á-listans telja rangt að segja skuldir og skuldbindingar Álftaness vera 7,4 milljarða króna. Nær sé að tala um að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins séu um fjórir milljarðar. Það sé meðal annars vegna þess að ekki sé tekið tillit til hagræðingar af leiguskuldbindingum og þess að í það stefni að þær lækki um fjörutíu prósent um áramótin og skuldbindingar falli þannig úr tæpum þremur milljörðum í um 1,7 milljarða.

„Af þessum fjórum milljörðum má rekja einn milljarð beint til efnahagshrunsins á Íslandi,“ segja þeir og bæta við að eignir sveitarfélagsins séu vanreiknaðar um allt að ríflega tvo milljarða króna vegna vanmats á lóðum og löndum.

Meðal skuldbindinga er samningur við Fasteign ehf. um leigu á íþróttamannvirki og sundlaug. Leigan hefur nú verið lækkuð og á að nema um 155 milljónum króna á næsta ári. Fulltrúar Á-listans benda á að samningurinn við Fasteign hafi verið samþykktur samhljóða í bæjarstjórn á árinu 2006. Skýrsla frá ráðgjafafyrirtæki hafi sýnt að sveitarfélagið réði við fjárfestinguna og bæjaryfirvöld metið það svo að ný sundlaugarmannvirki, sem séu senn skólamannvirki og til almenningsnota, myndu styrkja búsetu á Álftanesi og auðvelda uppbyggingu í nýjum miðbæ. Hluti af fjárfestingunni kæmi því til baka með nýjum tekjum. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×