Erlent

Fimmtán létust úr kulda

Mikið frost er víða um Evrópu. Í Póllandi hafa fimmtán manns látist úr kulda.
Mikið frost er víða um Evrópu. Í Póllandi hafa fimmtán manns látist úr kulda.

Víða í Evrópu hefur hitastig fallið niður fyrir frostmark og í Póllandi létust fimmtán manns úr kulda um helgina. Mikil snjókoma hefur valdið töfum á flugi í París og Amsterdam og var flugvellinum í Manchester og Brussel lokað vegna veðurs. Að auki urðu miklar tafir á lestaferðum víða um Evrópu vegna ísingar á lestarteinum.

Flest dauðsföll voru í Póllandi, en þar mældist tuttugu stiga frost um nóttina. Fimmtán manns dóu úr kulda og hefur pólska lögreglan biðlað til fólks að vera á varðbergi og gera lögreglu viðvart, sjái það útigangsmenn á götum úti.

Í Austurríki urðu tvær manneskjur úti um nóttina á leið heim frá kvöldskemmtun, einn lést í frönsku borginni Marseille og heimilislaus maður fannst látinn við járnbrautarstöð í Mannheim í Þýskalandi, en þar mældist fimmtán stiga frost um helgina.

Frosthörkurnar hafa einnig valdið miklum usla í Ítalíu en vegna mikillar snjókomu gengur erfiðlega að flytja nauðsynjavörur milli borga. Einnig er hætta á að ólífu- og ávaxtauppskerur skemmist vegna kuldans.- sm




Fleiri fréttir

Sjá meira


×