Innlent

Vill ekki hafa börnin í heimavist á Hornafirði

Húsmóðir á Svínafelli í Öræfum vill að látið verði reyna á lög sem heimila alþingismönnum, einum þegna, að eiga lögheimili á öðrum stað en makinn. Sjálf halda þau hjónin tvö heimili til að börn þeirra þurfi ekki að vera ein og umönnunarlaus á heimavist í grunnskóla fjarri heimaslóðum.

Sex bæir eru í Svínafelli en grunnskóli sveitarinnar er í næstu bæjaþyrpingu, að Hofi. Skólinn er þó ekki fyrir elstu árgangana. Til að taka níunda og tíunda bekk þurfa börnin að fara 130 kílómetra í burtu á Hornafjörð á heimavist, nokkuð sem Hafdís Roysdóttir í Svínafelli kærði sig ekki um fyrir fjórtán ára dóttur sína, Svanhvíti Helgu.

Hafdís segir að aðeins 3 börn séu í heimavistinni á Hornafirði og þau búi þar ein í íbúðarhúsi. Þetta hafi sér ekki fundist ásættanlegt. Sá sem hugsi um heimavistina búi annarsstaðar, reyndar í sömu götu, og börnin borði þar eina máltíð. Að öðru leyti hugsi börnin mikið um sig sjálf. Þetta hafi ekki verið kostur sem hún vildi fyrir sitt barn.

Fjölskyldan leigði sér því hús í fyrra á Kirkjubæjarklaustri, Hafdís fékk þar kennarastarf, setti Svanhvíti og yngri strákinn, Sigurð Pétur, þar í skóla, en þau fara svo um helgar og í skólafríum heim í Svínafell, þar sem eiginmaðurinn sér um búreksturinn.

Hafdís segir að börn verði ekki sjálfráða fyrr en 18 ára og sér finnist að foreldrum beri skylda til að sjá um þau fram að því, allavega, og hafa eitthvað um það að segja hvað þau borða, hvenær þau fara að sofa og hvort þau læri heima. Þetta hafi hún viljað gera sjálf en ekki láta aðra um að sjá um fyrir sig.

Það er hins vegar óvíst hvort þau geti haft þennan háttinn á. Sveitarfélagið Hornafjörður neitar að greiða skólakostnað fyrir börnin á Klaustri og þangað getur hún ekki flutt lögheimili sitt, en vill láta reyna á hvort það standist jafnræðissjónarmið, að alþingismönnum einum þegna leyfist að hafa annað lögheimili en makinn hefur.

Það er hins vegar dýrt að halda tvö heimili. Þann kostnað segir Hafdís að þau taki á sig með glöðu geði því þau sjái að þetta fyrirkomulag gefst vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×