Erlent

Bandarísk lögregla prófar höfuðmyndavélar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Svona lítur búnaðurinn út.
Svona lítur búnaðurinn út.

Lögregla í Kaliforníu hefur nú til reynslu nýja myndavélatækni sem ætlað er að vera til vitnis um allar aðgerðir hvers lögreglumanns.

Ítrekaðar ásakanir um ofbeldi og hrottaskap lögreglu í Kaliforníu og reyndar víða urðu kveikjan að tilraun til að mynda atburðarás allra mála sem hver lögreglumaður kemur að. Tæknin byggist á örsmárri myndavél sem svipar til heyrnartóls Bluetooth-farsíma en það er fest við eyra notandans.

Átján lögreglumenn bera myndavélarnar nú til reynslu og er gert ráð fyrir að kveikt sé á myndavélinni í hvert sinn sem lögregla hefur afskipti af borgurunum. Þeim myndskeiðum, sem orðið hafa til á hverri vakt, er svo hlaðið niður á harðan disk eftir vaktina og þau geymd í ákveðinn tíma þurfi að grípa til þeirra til sönnunarfærslu í dómsmáli eða vegna annarra rannsóknarhagsmuna.

Það er lögreglan í San Jose sem ríður á vaðið við prófun myndavélanna en það er fyrirtækið Taser International í Arizona, hið sama og framleiðir stuðbyssur fyrir lögregluna, sem framleiðir vélarnar og greiðir fyrir tilraunatímabilið en hver myndavél kostar rúmar 200.000 krónur og þjónustugjald fyrir hvern mánuð er yfir 12.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×