Erlent

Tuttugu ár frá falli einræðis í Rúmeníu

Nicolae Ceausescu og eiginkona hans, Elena Réttarhald yfir þeim fór fram á jóladag árið 1989 þegar þessi mynd var tekin. Síðar sama dag voru þau tekin af lífi.nordicphotos/AFP
Nicolae Ceausescu og eiginkona hans, Elena Réttarhald yfir þeim fór fram á jóladag árið 1989 þegar þessi mynd var tekin. Síðar sama dag voru þau tekin af lífi.nordicphotos/AFP

Íbúar í Rúmeníu virðast flestir ætla að láta framhjá sér fara minningarathafnir um fall Nicolaes Ceausescu einræðisherra, sem steypt var af stóli fyrir tuttugu árum.

Nokkur hundruð manns komu þó saman í bænum Timisoara á fimmtudaginn, þar sem kveikt var á kertum og frelsinu fagnað.

Þar í bænum hófst nefnilega hin eiginlega uppreisn gegn Ceausescu þegar íbúarnir komu til varnar presti nokkrum, Laszlo Tokes, sem var af ungverskum ættum og hafði í predikunum sínum verið óhræddur að gagnrýna stjórnvöld.

Til stóð að flytja prestinn í annað prestakall gegn vilja hans, en þegar lögreglan mætti stóðu íbúarnir fastir fyrir og átök hófust.

Þau átök mögnuðust snarlega og breiddust víðar um landið með skotbardögum og sprengjukasti á báða bóga. Næstu sex dagana kostuðu þessi átök þúsund manns lífið, þar af 118 í Timisoara.

Þetta voru einu vopnuðu átökin í byltingum íbúa Austur-Evrópuríkjanna haustið 1989. Fáeinum vikum áður hafði Berlínarmúrinn opnast án blóðsúthellinga og víðar í austanverðri álfunni hrundu kommúnistastjórnirnar eins og spilaborgir án þess að einu einasta skoti væri hleypt af.

Rúmenía var eitt fátækasta ríkið austan járntjalds og íbúarnir orðnir langþreyttir á geðþóttastjórn Ceausescus, sem var þá einn grimmasti einræðisherra austantjaldsríkjanna.

Alda mótmæla náði fljótlega til höfuðborgarinnar Búkarest og svo fór að einræðisherrann var gripinn og settur í járn. Á jóladag var síðan réttað yfir honum og hann tekinn af lífi ásamt eiginkonu sinni strax að réttarhöldunum loknum.

Í dag er Rúmenía gengin bæði í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Jólaskreytingar flæða um götur og verslanir, en efnahagsástandið er engu að síður erfitt og stjórnmálin í uppnámi.

Rúmenía er að drukkna í skuldum, stjórnmálamenn eru sakaðir um að vera á kafi í spillingu og nýafstaðnar forsetakosningar virðast hálf ómarktækar vegna ásakana um kosningasvindl.

Þegar svo háttar virðast sigrar byltingarmanna fyrir tuttugu árum litlu máli skipta.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×