Erlent

Dauðarefsingum hefur fækkað vestra

Dauðadeild Fangelsið í San Quentin í Kaliforníu er eitt hið rammgerðasta í Bandaríkjunum.fréttablaðið/AP
Dauðadeild Fangelsið í San Quentin í Kaliforníu er eitt hið rammgerðasta í Bandaríkjunum.fréttablaðið/AP

Undanfarin ár hafa dómstólar í Bandaríkjunum dæmt æ færri fanga til dauða. Jafnframt hefur föngum á dauðadeildum bandarískra fangelsa fækkað.

Á þessu ári hafa 106 manns hlotið dauðadóm í Bandaríkjunum, en frá því að dauðarefsingar voru teknar þar upp á ný árið 1976 hafa aldrei jafn fáir fengið slíkan dóm. Þegar dauðarefsingum var mest beitt, á tíunda áratug síðustu aldar, var ársmeðaltalið 295.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarískrar upplýsingamiðstöðvar um dauðarefsingar. Miðstöðin, sem er andvíg dauðarefsingum, segir ástæðu þessarar þróunar einkum vera ótta við að saklausir menn séu teknir af lífi.

Sinn þátt í þróuninni eiga einnig lög sem heimila að menn séu dæmdir í ævilangt fangelsi án möguleika á náðun, en einnig virðast bandarísk stjórnvöld hafa meiri áhyggjur af miklum kostnaði við dauðarefsingar. Bæði eru réttarhöld dýrari þegar dauðadóms er krafist og svo er áfrýjunarferlið lengra og dýrara, auk þess sem fangelsisdeildir dauðadæmdra fanga eru dýrari í rekstri en önnur fangavist.

Á þessu ári hafa níu menn, sem dæmdir höfðu verið til dauðarefsingar, fengið uppreisn æru og verið látnir lausir. Aldrei áður hafa jafn margir dauðadæmdir fangar fengið frelsið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×