Innlent

Uppsagnir og strætisvagnar seldir verði farið í útboð

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.
„Það er ekki hægt að afgreiða svona tillögur til frekari vinnslu og um leið segja engar kollsteypur fyrirhugaðar," segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, sem gefur lítið fyrir yfirlýsingar stjórnarformanns Strætós bs. um tillögur sem fela sér að rekstur á öllum strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu verði boðinn út til einkaaðila. Dagur segir að verði farið í útboð þýði það að strætisvagnarnir verði seldir og auk þess verði öllum vagnstjórum sagt upp.

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarformaður Strætós bs, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ekki standi til að ráðast í róttækar breytingar á rekstri byggðarsamlagsins. Tillögur Par-x viðskiptaráðgjafar IBM sem voru lagðar fram í vikunni séu einungis tillögur. Engin áform séu um að skerða þjónustuna eða segja starfsfólki upp.

„Mér finnst stjórnarformaður Strætó skauta býsna létt fram hjá því að á aðalfundi Sambands samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gær og ársfundi Strætó voru þessar tillögur Par-x lagðar fram um það að Strætó myndi umbreytast í fyrirtæki sem sæi um útboð á leiðum í stað þess reka vagnanna sjálft," segir Dagur og bætir við að um stórmál sé að ræða. Málið snúi að þjónustu við almenning og starfsöryggi starfsmanna fyrirtækisins. „Það á ekki að umgangast það að léttúð. Síst á tímum eins og við lifum núna."

Dagur segir á fundi Sambands samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gær hafi borgarstjóra og bæjarstjórunum verið falið að vinna frekar með tillögur Par-x. Þá segir Dagur að sér dugi ekki þau svör eins og veitt hafi verið á fundinum um að ekkert verði ákveðið í þessum efnum fyrr en eftir kosningar á næsta ári.

„Mér finnst mjög mikilvægt að svona ákvarðanir séu ekki teknar án umræðu og frekari rökstuðnings hvað þá í leyni eða þá að menn ætli að skjóta þessu, eins og öðrum ákvörðunum, fram yfir kosningar," segir Dagur.






Tengdar fréttir

Stendur ekki til að umbylta rekstri Strætós

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarformaður Strætós bs, segir að ekki standi til að ráðast í róttækar breytingar á rekstri byggðarsamlagsins. Hún segir ýmislegt jákvætt í nýlegum tillögum sem ráðgjafarfyrirtæki vann að beiðni stjórnar Samtaka sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu.

Strætó bjóði út allan rekstur strætisvagna

Rekstur á strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu verður boðinn út til einkaaðila, verði farið að tillögum Par-x viðskiptaráðgjafar IBM, sem skilað hefur skýrslu til stjórnar Samtaka sveitarstjórna á höfuðborgar­svæðinu. Mikill hallarekstur hefur verið á rekstri byggðarsamlagsins Strætó bs. Sveitarfélögin sem eiga Strætó leggja nú afar mikla áherslu á að þau þurfi ekki að bera neinar viðbótar byrðar vegna strætisvagnarekstursins. Meðal annars hefur verið brugðist við því með ákvörðun um að Strætó kaupi enga nýja vagna á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×