Erlent

Veittu 12.600 milljarða leynilán

king og darling Þingmenn hafa krafið Alistair Darling um skýringar á því hvers vegna láninu var haldið leyndu.
king og darling Þingmenn hafa krafið Alistair Darling um skýringar á því hvers vegna láninu var haldið leyndu.

Seðlabanki Englands veitti tveimur bönkum 62 milljarða punda leynilegt lán þegar bankakreppan skall á haustið 2008. Þetta kom fram í máli Mervins King seðlabankastjóra sem í gær sat fyrir svörum breskrar þingnefndar.

Það voru bankarnir Royal Bank of Scotland og HBOS sem fengu lánin sem samtals námu 12.600 milljörðum íslenskra króna. King sagði að bankinn hefði ákveðið að veita lánin vegna ástandsins sem hafði skapast. Gríðarlegur titringur hefði verið á markaðnum og lánalínur bankanna hefðu lokast í kjölfarið á falli Lehman Brothers-bankans. Til þess að reyna að endurheimta traust almennings á bankakerfinu hefði stjórn bankans samþykkt að fara þessa leið. Ákveðið hefði verið að halda lánveitingunni leyndri þar til jafnvægi kæmist á fjármálastarfsemi á ný. King tók fram að lánin hefðu verið endurgreidd að fullu í janúar.

Á fundi þingnefndarinnar kom einnig fram að Alistair Darling fjármálaráðherra hefði samþykkt að skrifa undir lánin og þar með verið tilbúinn að afskrifa upphæðina ef allt hefði farið á versta veg. Þingmenn Frjálslyndra demókrata hafa gagnrýnt lánveitinguna og óskað eftir skýringum frá Darling um það hvers vegna henni var haldið leyndri fyrir þinginu. - th




Fleiri fréttir

Sjá meira


×