Erlent

Dóttir Hróa hattar í þýskum banka

Óli Tynes skrifar
Keira Knightly í hlutverki dóttur Hróa hattar.
Keira Knightly í hlutverki dóttur Hróa hattar.

Sextíu og tveggja ára gömul þýsk kona hefur verið dæmd fyrir að færa tæplega átta milljónir evra á milli reikninga í bankanum sem hún vann hjá. Það er um einn og hálfur milljarður íslenskra króna.

Konan flutti þó ekki peningana yfir á eigin reikning. Hún flutti þá af reikningum auðmanna yfir á reikninga fólks sem átti í fjárhagserfiðleikum. Með því kom hún í veg fyrir að reikningum hinna blönku væri lokað.

Þegar svo hagur skjólstæðinganna braggaðist flutti hún peninga af reikningum þeirra og endurgreiddi auðmönnunum. Færslur hennar í þessum tilgangi voru samtals 117 á árunum 2003-2005.

Óhjákvæmilega náðu sumir skjólstæðinga konunnar sér ekki aftur á réttan kjöl. Vegna þess tapaðist um ein milljón evra eða um 180 milljónir króna. Sú var staðan þegar upp komst um athæfið.

Þessi kvenkyns Hrói Höttur var dæmd í 22 mánaða fangelsi. Þar sem hún viðurkenndi strax sekt sína og tók sér enga peninga sjálf, var dómurinn skilorðsbundinn.

Dómarinn sagði að henni hefði verið nægilega refsað með því að missa vinnuna og greiða bankanum bætur.

Sky fréttastofan segir að hún lifi nú á agnarlitlum eftirlaunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×