Erlent

Segir almenning mega verja sig fyrir lögreglu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
OMON-deildin í góðum gír.
OMON-deildin í góðum gír.

Innanríkisráðherra Rússlands segir að almenningi ætti að vera heimilt að berja frá sér ráðist lögregla á það að tilefnislausu.

Rashid Nurgaliyev, innanríkisráðherra Rússlands, segir í viðtali við Interfax-fréttastofuna í gær að sé viðkomandi ekki glæpamaður og sé auk þess ekki að brjóta af sér á nokkurn hátt sé það forsvaranlegt að hann svari í sömu mynt veitist lögregla að honum. Ummælin lét Nurgaliyev falla í tilefni máls sem kom upp fyrir nokkrum dögum þegar þrír ölvaðir lögreglumenn í Moskvu börðu mann til bana af litlu tilefni. Þremenningarnir gista nú fangageymslur og bíða ákæru.

Rússnesk lög banna ofbeldi gegn lögreglu en Nurgaliyev segir tilvik á borð við þetta einfaldlega víkja lagabókstafnum til hliðar enda sé lögregla komin langt út fyrir eðlilega hegðun í starfi í tilfellum á borð við það sem hér segir frá. Evrópusambandið hefur gagnrýnt starfshætti sérsveitar rússnesku lögreglunnar, hinnar svonefndu OMON-deildar, en það stendur fyrir Otryad Militsii Osobogo Naznacheniya, eða sérverkefnadeild, og segir hana oftar en ekki fara offari og stunda það að níðast á innflytjendum sem koma til Rússlands í atvinnuleit.

Lögreglustjórinn í Moskvu var rekinn í apríl eftir að lögregluþjónn hélt upp á afmælið sitt með því að drekka sig ofurölvi og skjóta tvær manneskjur til bana í stórmarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×