Innlent

Leggur til að Náttúruminjasafnið fái inn í Þjóðmenningahúsið

Þingmaður Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, lagði til á þingi fyrir stundu að Náttúruminjasafn Íslands fengi inn í Þjóðmenningarhúsið. Tilurð umræðunnar var húsnæðisleysi safnsins. Siv sagði það jafnframt fráleitt að Íslendingar ættu ekkert náttúruminjasafn.

Þessu var Katrín Jakobsdóttir, Menntamálaráðherra, sammála og sagði að það væri búið að endurvekja hóp sem fer yfir húsnæðismálin í samvinnu við ríki og Reykjavíkurborg.

Náttúrugripasafn var lengi starfrækt í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm. Með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands 2007 lauk hlutverki þess sem sýningarsafns á vegum Náttúrufræðistofnunar. Því var svo lokað vorið 2008. Á fjárlögum 2009 var Náttúruminjasafni Íslands úthlutað 27 milljónum króna til reksturs.

Höfuðsöfn eru skilgreind í Safnalögum. Þau eru Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og ber þeim að vera leiðandi í stefnumótun á landsvísu hvert á sínu sviði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×