Erlent

Íranar sýna enga samvinnu

Flugskeyti prófað Íranar gerðu í vikunni tilraunir með flugskeyti sem þeir segja til varnar kjarnorkustarfsemi í landinu.fréttablaðið/AP
Flugskeyti prófað Íranar gerðu í vikunni tilraunir með flugskeyti sem þeir segja til varnar kjarnorkustarfsemi í landinu.fréttablaðið/AP

„Við erum í raun komin í blindgötu, nema Íranar taki upp fulla samvinnu,“ sagði Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkueftirlitsins.

Hann segir tilraunir eftirlitsmanna til þess að komast að því hvort Íranar séu að búa sér til kjarnorkuvopn ekki hafa leitt neitt í ljós, hvorki af né á, og vegna skorts á samvinnu heimamanna sé tilgangslaust að halda þeim áfram.

Hann segir starfsmenn kjarnorkueftirlitsins ekki bera neitt traust til Írana eftir að uppvíst varð um leynilega kjarnorkuvinnslustöð í Íran nýlega.

Hann gagnrýnir einnig Írana fyrir að fallast ekki á alþjóðlegt samstarf um kjarnorkuáform sín, sem myndi torvelda þeim að framleiða vopn.

Gagnrýni hans þykir óvenju berorð, en um næstu mánaðamót lætur hann af störfum sem yfirmaður kjarnorkueftirlitsins. Hann hefur jafnan lagt áherslu á mikilvægi þess að eiga viðræður við Írana frekar en að beita refsiaðgerðum, hvað þá hóta hernaði.

Hann hefur einnig gagnrýnt Bandaríkin fyrir að ráðast á Írak undir því yfirskini að Saddam Hussein hafi haft yfir kjarnorkuvopnum að ráða, þrátt fyrir að kjarnorkueftirlitinu hafi aldrei tekist að sýna fram á það.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×