Skoðun

Draumur á jólanótt

Geir Sigurður Jónsson skrifar

Mig dreymdi lítinn draum. Ég kveikti lítinn eld við Kirkjusand. Það kom mér á óvart að neistinn varð skyndilega að stóru báli. Til að koma í veg fyrir álitshnekki, rændi ég slökkviliðsbíl bæjarins og læsti slökkviliðsmennina inni. Þegar á vettvang var komið fór í verra því ég vissi ekki alveg hvernig átti að skrúfa frá á vatninu.

Ég er sko tölvunarfræðingur ... ekki slökkviliðsmaður. „Geir, hringdu á slökkviliðið strax" æpti fólk í nærliggjandi húsum.Ég hringdi. "Þú kannt þetta ekki Geir!" sögðu slökkviliðsmennirnir, „Hleyptu okkur út Geir, til að slökkva eldinn. Þú mátt leika þér á slökkvibílnum þegar þessi eldur er búinn"

„Nei" sagði ég, það eru engin málefnaleg rök fyrir því að ég geti ekki slökkt eldinn" sagði ég ákveðinn en það læddist samt að mér smá grunur að hugsanlega hefðu þeir eitthvað til síns máls.

Ég hringdi í skyndi í þrjá félaga mína til að spyrja þá ráða. Þeir eru allir lögfræðingar og sannfærðu mig snarlega um að ég væri vel menntaður og víðsýnn einstaklingur og það væri alls ekki hafið yfir allan vafa að ég gæti ekki slökkt eldinn.

„Geir, hverfið er allt farið að brenna!" sagði fólkið og slagsmál höfðu brotist út, einhverjir vildu fá að lumra á mér ... en ég var nokkuð viss um að ég væri alveg að fara að finna vatnskranann.

„Þetta er ykkur að kenna" sagði ég til að þagga aðeins niður í fólkinu í brennandi húsunum. "Þið byggðuð húsin ykkar þarna! Það er ekki mér að kenna að húsin skuli vera fyrir eldinum".

Eldurinn var nú farinn að læsa sig í allri strandlengjunni, Straumur Burðarás, Íbúðalánasjóður ... stóðu í ljósum logum. Þegar eldurinn teygði sig í gegnum Kaupþingshúsið æpti ég á skrílinn: „Þið getið alls ekki fundið tölvunarfræðing sem er betri í að slökkva þennan eld en mig ... og ég hef lögfræðiálit til að sanna það!"

Ég fann kranann og sneri hraustlega. Það frussaðist svo mikið að ég ákvað að skrúfa aftur fyrir. Lögfræðingarnir vinir mínir voru orðnir votir, og það líkaði þeim illa. Við ræddum stuttlega saman, og niðurstaðan varð sú að ég myndi bíða, meðan þeir færu heim og færu í regngalla, og segðu öllum vinum sínum að fara í regngalla líka, því það væri von á smá gusu.

Fólkið var hætt að slást, það var komið vonleysi í augu þeirra, þau föðmuðu hvort annað og horfðu í ráðleysi á rústir húsanna.

Þegar lögfræðingarnir komu aftur var málið leyst. Allt sem eld festi í hafði brunnið. Þó rauk aðeins úr rústunum og allt var svo þægilega kyrrlátt og hljótt, nú þegar eldurinn hafði slökknað. Allir voru hættir að hrópa Geir þetta og Geir hitt.

Fólkið var farið, það var enginn eftir til að hrósa mér fyrir það að eldurinn logaði ekki lengur.

Við þetta vaknaði ég og horfði framan í 5 vikna gamlan son minn sem ég hef hingað til ætlað bjarta framtíð hérlendis, kannski við eigum okkur bara bjarta framtíð erlendis í staðin.

Bestu jólakveðjur til okkar ástsælu Ríkisstjórnar og ráðagóðu ráðamanna með von um að þið missið nú ekki svefn um jólin yfir ástandinu.






Skoðun

Sjá meira


×