Erlent

Engin merki um falsanir í stolnum tölvupóstum

Óli Tynes skrifar
Er að hlýna?
Er að hlýna? MYND/Anna Tryggvadóttir

Fréttamenn Associated press skoðuðu 1.073 tölvupósta sem stolið var af vefþjóni East Anglia háskólans en hann hefur verið í fremstu röð stofnana sem lagt hafa til gögn í loftslagsumræðunni.

Fréttamennirnir telja niðurstöðuna vera að sumir vísindamannanna hafi haft einhverjar efasemdir um leið og þeir sögðu umheiminum að þeir væru vissir um loftslagsbreytingarnar.

Associated Press telur þó að samskiptin þeirra í milli rýri ekki þau yfirgnæfandi gögn sem liggi fyrir um að jörðin sé að hlýna vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.

Associated Press talaði við Mark Frankel sem er forstöðumaður vísindafrelsis, ábyrgðar og laga við The American Association for the Advancement of Science.

Frankel skoðaði einnig tölvupóstana. Hann sagði að hann hefði ekki séð neinar sannanir fyrir fölsunum gagna þótt kannski mætti hafa áhyggjur af mjög frjálslegri túlkun í einhverjum tilfellum.

Hann sagði ennfremur að vísindamennirnir væru svo sannfærðir um eigin vísindi og svo reknir áfram af málstaðnum að þeim fyndist að þeir sem væru ekki sammála væru óvinir þeirra.

Associated Press segir að eitt af því sem veki mestan óróa sé að sumir vísindamannanna hafi viljað komast hjá því að deila gögnum sínum með efasemdarmönnum.

Allnokkrir þeirra hafi ítrekað nefnt það í póstum sínum. Það vekur um siðferðisspurningar þar sem frjáls aðgangur að gögnum er mikilvægur til þess að aðrir geti endurtekið tilraunir til að sannreyna þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×