Innlent

Flugráðsfólki haldin jólaveisla í Perlunni

Ekkert er til sparað í jólahlaðborði Perlunnar enda kostar 7.890 krónur fyrir manninn.Fréttablaðið/E.Ól.
Ekkert er til sparað í jólahlaðborði Perlunnar enda kostar 7.890 krónur fyrir manninn.Fréttablaðið/E.Ól.

„Ég er gestrisinn maður og alinn upp við góða mannasiði,“ segir séra Gunnlaugur Stefánsson, formaður Flugráðs, sem bauð ráðsmönnum og öðrum gestum í veglegt jólahlaðborð í Perlunni síðastliðið fimmtudagskvöld.

Eftir bankahrunið hefur opinberum aðilum verið lagt fyrir að hagræða í rekstri og skera niður öll útgjöld sem skilgreina má sem óþarfa. Sömuleiðis hafa skattar á almenning verið hækkaðir eins og kunnugt er og frekari hækkanir eru fram undan.

Gunnlaugur segir að þegar hann tók við formennsku í Flugráði fyrir þremur árum hafi hann lagt til að tekinn yrði upp sá siður að menn gerðu sér dagamun einu sinni á ári og borðuðu saman að loknum einum fundi. Í staðinn séu aðrir fundir ársins með einföldu sniði. „Við erum bara upp á vatn og brauð á fundunum,“ segir hann.

Þá bendir Gunnlaugur á að engin ofurlaun séu greidd fyrir setu í Flugráði. Þannig fái helmingur ráðsmanna alls enga þóknun en aðrir 25 þúsund krónur á mánuði. „Þannig að mér hefur þótt það við hæfi að mönnum sé sýndur einhvers konar smá vottur af þakklæti fyrir þessi störf – að gera sér þennan dagamun einu sinni á ári og finnst það í sjálfu sér ekki fréttaefni. Mér finnst fréttnæmara það sem við erum að gera heldur en hvað við borðum,“ segir formaðurinn.

Fréttablaðið hefur óskað eftir upplýsingum um veisluna á fimmtudagskvöld en þær hafa ekki borist. Gunnlaugur kveðst vilja afla nákvæmra talna áður en hann sendir þær frá sér. Jólahlaðborð í Perlunni kostar 7.890 krónur. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins taldi hópurinn í kvöldverði Flugráðs um tuttugu gesti.

Í Flugráði sitja sex manns. Auk Gunnlaugs er það þau Gísli Baldur Garðarsson varaformaður, séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Árni Gunnarsson, Jens Bjarnason og Lárus Atlason. Það var samgönguráðherra, Kristján L. Möller, sem skipaði í flugráðið.

gar@frettabladid.is

Séra Gunnlaugur Stefánsson
Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir


Gísli BaldurGarðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×