Erlent

Fimm menn handteknir

Fannst í þremur hlutum í skógi skammt frá heimili eins þjófanna.
fréttablaðið/AP
Fannst í þremur hlutum í skógi skammt frá heimili eins þjófanna. fréttablaðið/AP

Fimm menn voru handteknir seint á sunnudagskvöld fyrir stuld á járnskiltinu alræmda, sem var yfir hliði útrýmingarbúða nasista í Auschwitz í Póllandi.

Pólska lögreglan segir mennina ekki vera nýnasista, heldur virðist sem þeir hafi bara verið á höttunum eftir peningum sem hugsanlega fengjust fyrir skiltið.

Skiltinu var stolið aðfaranótt föstudags, en fannst í þremur hlutum í skógi skammt frá heimili eins sakborninganna eftir að meira en hundrað ábendingar höfðu borist til lögreglu.

„Þetta eru venjulegir þjófar,“ segir Marek Wozniczka, einn þeirra lögreglumanna sem rannsaka stuldinn. Þeir eru á þrítugsaldri, fjórir þeirra atvinnulausir en einn rekur lítið byggingafyrirtæki.

Skiltið settu þýskir nasistar upp yfir hlið útrýmingarbúðanna, þar sem meira en milljón manns létu lífið á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Á skiltinu standa þýsku orðin „Arbeit macht frei“, eða „Vinnan veitir frelsi“.

Strax á föstudaginn var sett upp nákvæm eftirgerð skiltisins, sem notuð var á meðan gert var við upphaflega skiltið fyrir nokkrum árum. Stolna skiltið verður sett á sinn stað um leið og viðgerð á því lýkur.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×