Erlent

Þingmenn missi nefndarlaun

Kári P. Højgaard var vændur um að vilja komast í nefnd peninganna vegna og svarar með því að stinga upp á að grunnlaun þingmanna verði látin duga fyrir öllum þingstörfum þeirra. 
Fréttablaðið/klemens
Kári P. Højgaard var vændur um að vilja komast í nefnd peninganna vegna og svarar með því að stinga upp á að grunnlaun þingmanna verði látin duga fyrir öllum þingstörfum þeirra. Fréttablaðið/klemens

Formaður Sjálfsstjórnarflokksins í Færeyjum, Kári P. Højgaard, segist tilbúinn til þess að þingmenn fái hér eftir ekki greitt sérstaklega fyrir embætti innan þings, svo sem þegar þeir fara með formennsku í þingnefndum, heldur verði þingfararkaup látið duga.

Hann og Jenis av Rana, formaður Miðflokksins, höfðu lagt til að nefndarmönnum í tveimur nefndum yrði fjölgað, þannig að litlu flokkarnir, nefnilega Miðflokkur og Sjálfsstjórnarflokkur, fengju þar sæti einnig. Þetta væru lýðræðisumbætur því þá gæti stjórnar­andstaðan fylgst betur með stjórnar­flokkunum.

Sósíalurinn greinir frá því að gagnrýnendur hafi þá vænt þá Kára og Jenis um að vilja komast í nefndina til að hækka í launum. Þeir brugðust við með ofangreindum hætti.

Í Færeyjum mega þingmenn sem gerast ráðherrar ekki vera þingmenn um leið. Kári segir að laun fyrrverandi ráðherra megi einnig endurskoða. Ekki fari ekki vel á því að ráðherrar, sem detta úr ríkisstjórn og taka sæti á þingi að nýju, séu á biðlaunum sem ráðherrar í einhverja mánuði. Nær væri að láta ein laun, hærri upphæðina, duga.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×