Erlent

Lögregla í Afríku lagði hald á jólasvein

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Stytta af sveinka, þó ekki morðvopnið.
Stytta af sveinka, þó ekki morðvopnið.

Sérkennilegu vopni var beitt þegar maður var barinn til bana í átökum í Suður-Afríku.

Michael Grootboom, sem var 48 ára gamall, var úrskurðaður látinn af völdum mikilla höfuðáverka utan við heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar í bænum Uitenhage í Suður-Afríku. Morðvopnið var óvenjulegt að sögn lögreglunnar á staðnum en það var stytta af jólasveini.

Grootboom heimsótti konuna og núverandi mann hennar, Williams Witbooi, en ekki leið á löngu þar til þeim sinnaðist eitthvað og stigmagnaðist deilan uns átök brutust út. Parið hafði verið að skreyta heimilið fyrir jólin og greip Witbooi það vopn sem hendi var næst en það var jólasveinsstyttan. Hóf hann styttuna upp, hjó af alefli í höfuð andstæðings síns sem varð þegar örendur.

Lögregla kom á vettvang og handtók parið og lét varðstjórinn Priscilla Naidu hafa það eftir sér að það yrði að teljast óvenjulegt að menn gripu til vopna af þessu tagi í átökum. Greinilegt væri að þarna hefðu harðvítugar deilur átt sér stað og þeim lyktað með ósköpum. Tæknilið lögreglu rannsakaði glæpavettvanginn og lagði að því loknu hald á jólasveininn sem aðalsönnunargagn málsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×