Viðskipti innlent

Havila Shipping lýkur kaupum á íslenskum skuldabréfum

Norska skipafélagið Havila Shipping hefur lokið kaupum á íslenskum skuldabréfum sem voru gefin út 2005 og áttu að koma til borgunar á næsta ári. Skuldabréfin voru skráð í kauphöllinni og námu 250 milljónum norskra kr. eða ríflega 5 milljörðum kr.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að 100% af eigendum skuldabréfanna hafi gengið að tilboði skipafélagsins og að málið verði afgreitt í samræmi við tilboðið.

Í frétt hér á síðunnki um málið þann 2. september s.l. segir að í tilkynningu á heimasíðu Havila Shipping um málið segir að rætt sé um bréfin í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2008. Þegar bréfin voru gefin út, sem trygging fyrir láni til Havila, var jafnframt gerður afleiðusamningur við Glitni til að tryggja félagið gegn gengi íslensku krónunnar og vísitölunnar.

„Bankinn er nú í höndum skilanefndar og því nær öruggt að afleiðusamningurinn er ekki í gildi lengur. Það þýðir að Havila Shipping er óvarið fyrir áhættunni og bæði íslensku krónunni og íslensku neysluvísitölunni," segir á heimasíðunni. „Tilboðið um kaupin er gert til að draga úr þessari áhættu."

Það fylgir jafnframt sögunni að tilboðið verði fjármagnað með nýjum skuldabréfaflokki í Noregi sem þegar er til staðar.

Þá segir ennfremur að fram til 31. október muni Havila Shipping kaupa íslenskar krónur til að ljúka málinu..."á verði sem félagið telur ásættanlegt."

Havila Shipping var stofnað 2003 og sérhæfir sig í ýmiskonar þjónustu við olíuborpalla og aðra olíuvinnslu á hafi út. Það á 19 skip í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×