Skoðun

Myndatökur í dómsal

Í Danmörku og Noregi er lagt bann við því í lögum að taka myndir af sakborningi í dómhúsi og á leiðinni til og frá dómhúsi. Í lögum er jafnframt kveðið á um viðurlög ef brotið er gegn þessu banni og hefur fjölmiðlum verið gert að greiða sektir vegna slíkra brota. Rökin fyrir setningu framangreindra lagareglna í norrænum rétti eru þau að með myndbirtingum af sakborningi í dómhúsi og á leiðinni til og frá dómhúsi sé brotið gegn friðhelgi einkalífs viðkomandi sakbornings sem nýtur verndar stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Þessi rök eiga einnig við á Íslandi.

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Það er einn þáttur í friðhelgi einkalífs að hver maður á rétt til eigin myndar. Af því leiðir sú meginreglan að myndataka og myndbirting af manni án hans samþykkis felur í sér brot á friðhelgi einkalífs hans. Samkvæmt sakamálalögum er sakborningi skylt að koma fyrir dóm við þingfestingu sakamáls. Ef sakborningur hlýðir ekki fyrirkalli dómara er heimilt að færa hann fyrir dóm með valdi. Sakborningur hefur því ekkert val. Hann getur ekki ákveðið að sitja heima í skjóli stjórnarskrárvarinna réttinda um friðhelgi heimilis og einkalífs. Honum er skylt að koma fyrir dóm og svara til saka.

Á vefsvæði héraðsdóms er birt dagskrá yfir þau mál sem rekin eru fyrir viðkomandi dómstóli. Í dagskránni er greint frá nafni sakbornings, brotategund ásamt stað og stund þegar sakborningur á að mæta fyrir dóm. Fjölmiðlar fylgjast grannt með þessari dagskrá. Þegar sakborningur mætir fyrir dóm samkvæmt lagaboði er hann því auðveld bráð fjölmiðla sem skeyta oft engu um stjórnarskrárvarinn rétt viðkomandi sakbornings til friðhelgi einkalífs og rétt hans til eigin myndar. Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður að telja að sú skylda hvíli ótvírætt á íslenskum stjórnvöldum að tryggja grundvallarmannréttindi sakbornings, þ.e. rétt til eigin myndar og friðhelgi einkalífs, séu virt við meðferð sakamála og þeir sem brjóta gegn þessum grundvallarréttindum verði beittir lögmæltum viðurlögum.

Hvort fylgja eigi fordæmi Norðmanna og Dana og lögfesta bann við myndatökum af sakborningi í dómhúsi og á leiðinni til og frá dómhúsi verður ekki lagt mat á hér, en það hljóta að vera lágmarksréttindi sakbornings að hann þurfi ekki að sæta því að teknar séu af honum myndir í dómsal gegn vilja hans og þær birtar í fjölmiðlum.

Höfundur er héraðsdómslögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×