Erlent

Ísraelar viðurkenna líffæraþjófanði

Óli Tynes skrifar

Mikið upphlaup varð í sumar þegar sænskur blaðamaður hafði eftir palestinskum heimildarmönnum að Ísraelar hefðu stolið líffærum úr líkum palestínumanna sem hefðu fallið í átökum við ísraelska herinn.

Yfirvöld í Ísrael vísuðu þessu algerlega á bug og höfðuðu mál gegn blaðamanninum.

Ísraelsk sjónvarpsstöð sýndi svo um helgina viðtal sem bandarískur vísindamaður tók við Jehuda nokkurn Hiss árið 2000.

Hiss var þá yfirlæknir á réttarlæknisdeild Abu Kabir stofnunarinnar í Ísrael. Samkvæmt ísraelsku sjónvarpsstöðinni viðurkenndi Hiss að þeir hefðu numið á brott hornhimnur úr augum látinna og einnig húð, hjartalokur, bein og annað.

Oft var þetta gert án þess að fengið væri leyfi aðstandenda. Þessir líffæraþjófnaðir voru úr líkum ísraelskra hermanna, óbreyttra ísraelskra ríkisborgara, palestínumanna og annarra.

Í kjölfarið á þessu hefur ísraelski herinn viðurkennt að líffæraþjófnaðir hafi átt sér stað, en fullyrðir að þeim hafi nú verið hætt.

Jehuda Hiss segir að í nokkrum tilfellum hafi kryfjendur límt aftur augnlok hinna látnu til þess að ekki sæist að hornhimnurnar hefðu verið numdar á brott.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×