Erlent

Eykur enn á spennuna

Tilraunaskot Íranar skjóta upp nýja flugskeytinu Sajjil-2.nordicphotos/AFP
Tilraunaskot Íranar skjóta upp nýja flugskeytinu Sajjil-2.nordicphotos/AFP

Íranar gerðu í gær tilraun með endurbætta gerð langdrægs flugskeytis, sem hægt væri að skjóta á Ísrael og hluta Evrópu.

Tilraunin eykur enn á spennu milli Írans og Vesturlanda, sem hafa með litlum árangri reynt að fá Írana til að draga úr kjarnorkuáformum sínum.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segir málið alvarlegt og auki líkur á frekari refsiaðgerðum gegn Íran.

Flugskeytið er af gerðinni Sajjil-2 og dregur um 2.000 kílómetra. Þar með er Ísrael innan skotlínu þess, ásamt herstöðvum Bandaríkjahers við Persaflóa og hluta Suðaustur-Evrópu. Íran hefur ítrekað heitið hörðum viðbrögðum ef Ísrael eða Bandaríkin tækju upp á því að ráðast á kjarnorkustöðvar í Íran. Ahmad Vahidi, varnarmálaráðherra Írans, segir nýja flugskeytið hafa mikinn fælingarmátt gegn árásum erlendra ríkja. Nýja flugskeytið fari hraðar en eldri gerðin og því eigi að vera erfiðara að skjóta það niður með eldflaugavarnarkerfum.

Íranar hafa jafnan harðneitað ásökunum Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda um að þeir hyggist koma sér upp kjarnorkuvopnum, þrátt fyrir uppbyggingu kjarnorkuvinnslu. Kjarnorkuna segjast þeir eingöngu ætla að nota í friðsamlegum tilgangi til að framleiða rafmagn.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×