Erlent

Barnaklámshringur upprættur

Evrópska lögreglan Europol hefur greint frá því að tekist hafi að uppræta barnaklámshring á Netinu. Kennsl hafa verið borin á fimm fórnarlömb, börn á aldrinum fjögurra til tólf ára. Einnig hafa verið borin kennsl á 221 kynferðisafbrotamann, og 115 hafa nú þegar verið handteknir.

Brotamennirnir voru handteknir við húsleitir í Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Búlgaríu, Kanada, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Litháen, Lúxemborg, Möltu, Hollandi, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni og Sviss. Ekki hefur verið greint frá því hvenær handtökurnar áttu sér stað. Rannsókn málsins hefur tekið tvö ár og var það sérdeild austurrísku lögreglunnar sem leiddi rannsóknina. Sérdeildin fann barnaklámshópa sem höfðu notfært sér netþjón sem var hýstur þar í landi til þess að dreifa barnaklámi.

Brotamennirnir grunuðu hafa mjög mismunandi bakgrunn, en greint hefur verið frá því að einhverjir þeirra hafi verið kennarar eða í öðrum störfum tengdum börnum.

Europol hefur fram til þessa aðstoðað við að uppræta 23 alþjóðlega barnaklámshringi og borið kennsl á um 1.600 kynferðisbrotamenn.

- þeb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×