Skoðun

Ruslið í ríkinu

Haukur Már Helgason skrifar um málefni innflytjenda

Rusl er merkilegt orð. Annars vegar vísar það til þeirra hluta sem hafa misst gildi sitt, notagildi eða annað, og eru orðnir óþarfir. Benda má og spyrja: Er þetta rusl? Ef svarið er já, hvað er þá, hins vegar, gert við það? Því er hent í ruslið. Þar er hin merking orðsins – staðurinn fyrir það sem hefur misst gildi sitt.

Reyndar er ofmælt að það sé staður – ruslið er frekar staðleysa, gat á heiminum, út úr honum. Það sem er sett í ruslið á ekki að snúa þaðan aftur. Þorra fólks finnst ekki geðslegt að borða matvæli sem hent hefur verið í ruslið, hvort sem þau eru heil eða ekki. Það sem hefur verið fært yfir mörkin, í ruslið, á þaðan í frá ekki að láta bæra á sér á heimilinu. Hvort það verður urðað, brennt eða endurunnið gildir einu, bara að það snúi ekki aftur. Þannig lagði víst kona í Reykjavík, ekki fyrir löngu, fram kæru þegar hún sá alheilt reiðhjól sem hún hafði hent í ruslið – já, þetta var þá líklega í góðærinu – snúa aftur undir rassinum á ókunnugu fólki. Maður vill ekki hafa svona lagað.

Auðvitað hættir rusl ekki að vera til, þó það sé sett í körfu, lúgu og tunnu. Það er sótt af starfsmönnum sem aka því um og koma því fyrir þar sem minnst má gera úr því. Og þó það sé brennt stígur af því reykur. Honum blæs kannski burt á haf út hér af eynni en snýr víst alltaf aftur einhvern veginn, einhvern daginn. Það er lúga í blokkinni og það er púströr á bílnum en það er ekkert gat á heiminum.

Nú hefur íslenska ríkið enn einu sinni ákveðið að fara út með ruslið. Menn hafa ráðfært sig hver við annan, bent og spurt: Er þetta rusl? Og þeir hafa litið í bækur, kinkað kolli hver við öðrum og sagt já. Þetta er rusl. Mister Proper kom sem endranær eins og brosandi stormsveipur inn á heimilið og hrifsaði með sér draslið: þrjá karlmenn sem heita Nour, Mohamed og Mohamed.

Ég hafði enga grein gert mér fyrir þessu. Ég hélt að Nour væri andskoti efnilegur 19 ára gamall piltur með staðfast augnaráð og áhuga á tónlist. Svolítið glysgjarn kannski. Svo reyndist hann bara vera rusl. Og nú eru yfirvöld búin að setja hann á sinn stað, í rennuna.Ein saga

Nour-aldin Al-azzawi er fæddur 1990 í Írak. Árið 2003 var faðir hans myrtur af uppreisnarmönnum fyrir að starfa sem túlkur fyrir Bandaríkjaher. Unglingurinn Nour var pyndaður í fjóra daga samfleytt af þeim hópum. Hann flúði með móður sinni og tveimur systkinum til Sýrlands. Þau héldu þaðan gegnum Tyrkland til Grikklands, í von um hæli í Evrópu. Lögreglan geymdi þau þar í opnu skýli í níu daga. Þau fóru til Belgíu þar sem elsti sonurinn bjó þegar. Eftir þrjá mánuði þar var þeim vísað aftur til Grikklands, hverju í sínu lagi. Neyra, systir Nours, þá 19 ára, var afklædd af lögreglu, leitað á henni, hún svo send bundin á höndum og fótum í flugvél. Lögreglumenn tróðu tusku upp í hana svo hún hætti að gráta í flugvélinni. Í Grikklandi voru þau geymd í tíu daga í fangelsi, svo leyft að velja hvort þau sneru aftur til Íraks eða væru áfram í Grikklandi – en án dvalarleyfa, atvinnuleyfis eða annarra réttinda. Mæðgurnar héldu til Sýrlands. Bróðir Nour varð eftir, pappírslaus, í Grikklandi. Nour ákvað að halda til Kanada, því kæmist hann út fyrir Schengen svæðið yrði honum ekki vísað til Grikklands. Á Íslandi var hann hins vegar stöðvaður fyrir að vera með fölsk skilríki. Þá sótti hann um hæli hér. Hann hafði dvalið á Íslandi í rúmt ár, eignast marga vini og var kominn með starf á veitingastað, þegar lögreglan mætti á heimili hans um miðja nótt og tilkynnti honum að nú yrði hann settur aftur í ruslið.Í skjóli nætur

Nour bað um að fá að sækja launin sín á vinnustað áður en hann færi. Nei. Birgitta Jónsdóttir þingmaður bað dómsmálaráðherra um 15 daga frest, eins og nefnd ráðuneytisins sjálfs hefur mælst til að verði veittur við brottvikningu. Nei. Birgitta bað um að Nour fengi að halda símanum sínum svo hann gæti haldið sambandi við vini sína. Nei. Allar þessar litlu ákvarðanir eru jafn rökstuðningslausar og sá stóri dómur að strákurinn sé rusl. Eina réttlæting þeirra: Þetta má.

Því er víða logið um þessar mundir að yfirvöldum beri lagaleg skylda til að vísa Nour úr landi. Það er ekki rétt. Útlendingalög eru sneisafull af heimildum, en fátæk af skyldum. Þetta þarf ekki, en það má.

Þeim rógi er haldið á lofti að þarna sé glæpamönnum haldið frá landinu. Nei, þetta eru ekki glæpamenn.

Óskhyggja fær suma til að segja að álykta að aðstæður og meðferð mála í Grikklandi hljóti að vera viðunandi, fyrst menn eru sendir þangað. Nei. Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn þrábiðja ríkisstjórnir að hætta sendingum þangað.

Þeir sem neita að hlusta á gagnrýni á þessa útfararstefnu, að henda fólki í ruslið þegar það má, sýna af sér háskalega undirgefni.Endurunnið, urðað eða brennt?

Við hvorki vitum um afdrif þess sem við hendum í ruslið né viljum þekkja þau. Við vitum að ruslið fer á illa lyktandi og þröngan stað, því er kastað til og frá – en hvort sem það er endurunnið, urðað eða brennt, skiptir mestu að það fari, þvælist ekki lengur fyrir. Nour flúði hingað undan stríðinu í Írak. Íslenska ríkið átti þátt í að hefja það stríð – en hvað var það líka nema svolítil sorphirðuframkvæmd? Já, Nour komst undan sorphirðunni, en ekki lengi. Aftur í lúguna með strákinn. Það er alls ekki nákvæmt að kalla það morð – hver veit hvað Nour fær að húrra lengi um rennuna og bíða lengi í tunnunni áður en hann verður sóttur. Og hver veit hvort ofninn verður í gangi? Hver veit nema einhver gramsi í ruslinu, rekist á Nour og finni not fyrir hann?

Tveir aðrir voru sendir burt um leið og Nour, menn frá Írak og Afghanistan. Þeir heita báðir Mohamed. Það er víst meira en nóg af Múhammeðum fyrir. Sá fjórði sem átti að henda, Wali-Safi, er nú í felum, reynir að sleppa. Eins gott að vinstristjórnin standi sig í sorphirðunni. Það er ekki á það bætandi í kreppunni.

Höfundur er rithöfundur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.