Lífið

Með örninn hans Reagan til Miami

Á leið til Miami Fréttamaðurinn Einar Þorsteinsson ætlar að segja skilið við Ísland í bili og sækja nám í stjórnmálafræði við háskólann í Miami ásamt konu sinni.
Á leið til Miami Fréttamaðurinn Einar Þorsteinsson ætlar að segja skilið við Ísland í bili og sækja nám í stjórnmálafræði við háskólann í Miami ásamt konu sinni.

"Við tókum þessa ákvörðun þegar allt hrundi," segir Einar Þorsteinsson, fréttamaður á RÚV en hann hyggst halda utan í nám í stjórnmálafræði. Einar ætlar þó ekki að fara til Noregs eða Danmerkur eins og margir landar hans heldur kýs frekar sól og sumaryl á Miami. „Unnusta mín, Helga Kristín Auðunsdóttir,er lögfræðingur hjá Stoðum og hún sótti um styrk til framhaldsnáms í lögfræði við háskólann í Miami. Hún fékk hann og ég fylgdi bara á eftir,“ útskýrir Einar sem sjálfur bíður eftir svari frá stjórnmálafræðideild háskólans. „Ég hef engar áhyggjur af, ég held að ég ætti alveg að komast inn.“

Einar og Helga eiga eina tveggja ára dóttur og eru nú að leita að leikskólaplássi fyrir hana. „Maður áttar sig kannski á því hvað við erum heppin hér á Íslandi með leikskólana okkar. Til að fá inni á sambærilegum leikskóla þarna úti þarf maður að borga ansi myndarlega fjárhæð.“

Og Einar lumar á nokkuð merkilegum grip sem hann tekur að sjálfsögðu með sér til Ameríku. Um er að ræða kristalsörn sem afi Einars, Guðmundur Benediktsson, fyrrum ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, fékk að gjöf frá sjálfum Ronald Reagan þegar leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða 1986. „Þegar afi dó fengum við barnabörnin gripi frá ömmu úr safni þeirra og þessi forláta örn fór heim til mín.“

-fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.