Sport

Þær frönsku fengu rassskellingu frá Þýskalandi

Ómar Þorgeirsson skrifar
Þær þýsku fagna einu marka sinna í dag.
Þær þýsku fagna einu marka sinna í dag. Nordic photos/AFP

Ríkjandi heims -og Evrópumeistarar Þjóðverja héldu sigurgöngu sinni áfram í B-riðli Evrópumótsins með 1-5 sigri gegn Frakklandi í dag en Þýskaland vann 4-0 sigur gegn Noregi í fyrsta leik sínum í riðlinum.

Þær þýsku byrjuðu leikinn af miklum krafti og Inka Grings opnaði markareikninginn strax á 9. mínútu með góðu skallamarki eftir sendingu frá Birgit Prinz.

Annike Krahn bætti við öðru marki fyrir Þýskaland þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af leiknum og Melanie Behringer skoraði svo þriðja markið rétt áður en hálfleiksflautan gall.

Þær þýsku héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og Bresonik skoraði fjórða markið úr vítaspyrnu á 47. mínútu.

Frakkar náðu að svara fyrir sig á 51. mínútu með marki Gaetane Thiney en Þjóðverjar voru ekki hættar og varamaðurinn Simone Laudehr fullkomnaði niðurlægingu Frakka með fimmta markinu í blálokin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×