Erlent

Telegraph fjallar um Essasa Sue

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Essasa Sue.
Essasa Sue.

Malasísk kona hefur heldur betur hlotið athygli út á froskaauglýsingar Vodafone.

Þeir eru væntanlega fáir sem hafa ekki heyrt einhverja útgáfu af auglýsingum Vodafone þar sem Pétur Jóhann Sigfússon ljáir froski nokkrum rödd sína og hefur þegar komið sér upp nokkrum ódauðlegum frösum, þar á meðal hinu þekkta ávarpi „essasú?"

Fyrir þessu hefur 19 ára gömul kona í Malasíu heldur betur fengið að finna að sögn breska blaðsins Telegraph en manneskjan heitir Essasa Sue og hleður nú á sig vinum á Facebook-síðu sinni, flestum íslenskum. Eins og þetta nægi ekki hefur verið komið upp aðdáendahópi Essösu á Facebook og berst sá fyrir því að fá hana í opinbera heimsókn til Íslands. Um þúsund manns hafa þegar skráð sig í hópinn.

Fullu nafni heitir Essasa reyndar Essasa Sie Sue Wei og segir í viðtali við Telegraph að það sé hreint út sagt magnað að frasi úr auglýsingu í allt öðrum heimshluta hljómi eins og nafnið hennar. Hún lætur þess einnig getið að allir nýju íslensku vinirnir hennar, tæplega 3.000 talsins, séu hið geðþekkasta fólk og útilokar hreint ekki að hún líti í heimsókn hingað einn daginn. Telegraph ræðir einnig við Sigurjón Hallgrímsson, stofnanda baráttuhópsins á Facebook, sem segir að allt hafi þetta byrjað sem grín.

Því er auðtrúað enda er samhljómur kvenmannsnafns og bablandi froskins með barnsröddina ekkert annað en bráðfyndinn.

Lesa má frétt Telegraph hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×