Innlent

Varar við verðlausu rafmagnsdóti

Gaumgæfir hér kopargreiðu, sem hann segir selda á 55.000 krónur. Hana kosti skamma stund og innan við þúsund krónur að búa til.Fréttablaðið/pjetur
Gaumgæfir hér kopargreiðu, sem hann segir selda á 55.000 krónur. Hana kosti skamma stund og innan við þúsund krónur að búa til.Fréttablaðið/pjetur

Skemmdarverk eru víða unnin á heimilum á Íslandi þegar til þess ófaglærðir menn aftengja lögbundnar rafbindingar, svo íbúðirnar uppfylla ekki lengur staðla um raföryggi. Rafkerfið verður stórhættulegt og segulsvið getur rokið upp úr öllu valdi. Svo segir í ábendingu frá Guðlaugi Kristni Óttarssyni öreindafræðingi og kennara, sem hann sendi Neytendastofu á dögunum.

Til að kóróna ofangreint selji þessir menn síðan íbúum verðlausa kopargreiðu á 55.000 krónur svo hún dragi í sig rafmengunina. Guðlaugur telur að þessi starfsemi Kletts ehf. sé hættuleg og hrein svik við neytendur.

„Ég er sífellt að rekast á ný tilfelli þar sem búið er að selja fólki þennan töfrabúnað,“ segir hann og bætir við að efniskostnaður slíkrar kopargreiðu sé undir þúsund krónum.

Garðar Bergendal er eigandi Kletts. Hann segist aldrei eiga við rafkerfi í húsum nema hafa til þess bæran rafvirkja með sér. „Ég kannast ekkert við þetta. Ég hef ekkert leyfi til að rífa jarðbindingar úr sambandi. Ég er bara að mæla rafsegulsvið í húsum,“ segir hann. Öðru nær, komi hann að slíkum húsum, bendi hann íbúum á hættuna.

Garðar kannast heldur ekki við að selja kopargreiður. „Ég veit ekkert hvað maðurinn er að tala um einu sinni,“ segir hann.

Hann var þá spurður um auglýsingu á heimasíðu sinni, þar sem segir „Rafbylgjur eru allt í kringum okkur, og geta valdið [...] ýmsum kvillum hjá fólki og dýrum. Besta leiðin til að koma í veg fyrir þetta er að umpóla tenglum, og koma fyrir rafbylgjutæki í jörðu sem stöðvar neikvæðar bylgjur.“

Um þetta segir Garðar: „Jú, ég sel rafbylgjutæki, ég kannast við það.“

Spurður úr hverju tækin séu smíðuð segist hann ekki hafa hugmynd um það. Hann selur þau á milli fimmtíu og sextíu þúsund krónur, en veit ekki hvað þau kosta í framleiðslu. Hann selji tækin við sama verði og hann kaupi þau á.

„Hvernig kemur mönnum til hugar að þetta sé svindl?“ spyr Garðar og vísar til jákvæðra umsagna fólks á heimasíðu sinni. klemens@frettabladid.is

kopargreiðan sjálf



Fleiri fréttir

Sjá meira


×