Erlent

Á fimmta þúsund salerni um borð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Oasis í smíðum en ætla má að bygging slíks skips jafnist á við að reisa tugi blokka.
Oasis í smíðum en ætla má að bygging slíks skips jafnist á við að reisa tugi blokka.

Oasis of the Seas hin nýja kostaði andvirði rúmlega 170 milljarða íslenskra króna í framleiðslu og má hreinlega líkja við fljótandi smáríki. Fyrir utan að vega ein 225.000 tonn eru þilför skipsins hvorki meira né minna en sextán svo þeir 6.292 farþegar sem pláss er fyrir um borð ættu að geta notið útsýnisins þokkalega í siglingunni.

Reyndar er pláss fyrir mun fleiri um borð þar sem áhöfnin telur 2.165 manns sem eru nánast þrír farþegar á hvern starfsmanna svo ætla má að þjónustan sé ásættanleg. Farþegar og áhöfn geta því mest orðið 8.457 sem er nokkurn veginn upp á hár íbúafjöldi Mosfellsbæjar svo það er eins gott að 4.100 salerni eru um borð. Meðal þess sem gera má sér til dundurs um borð er að prófa klettaklifur, skella sér á skauta, búðaráp eða barrölt auk þess að ganga um guðsgræna náttúruna í almenningsgarði þar sem finna má 12.000 lifandi plöntur og tré.

Sjávarfallabarinn, sem heitir Rising Tide, hækkar sig og lækkar líkt og hann fylgi flóði og fjöru og mega bargestir búast við að fara upp og niður milli þriggja þilfara. Sjö daga siglingu má fá fyrir tæpar 130.000 krónur á mann en ætli fólk að gera þetta almennilega er bent á tveggja íbúða svítu á efsta þilfarinu með 80 fermetra einkasvölum. Vikan þar er örlítið dýrari og kostar tvær milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×