Skoðun

Opið bréf til borgarfulltrúa

Gerður Aagot Árnadóttir skrifar opið bréf til Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur

Sæl Þorbjörg Helga.

Í pistli þínum í Fréttablaðinu í síðustu viku víkur þú að Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra, og virðist óhress með að hún skyldi einfaldlega neita að skera niður útgjöld Félags- og tryggingamálaráðuneytisins á fjárlögum 2009. Fólk eins og ég, sem hef komið að málefnum fatlaðs fólks undanfarin ár og þekki þann alvarlega skort sem til staðar er í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi, verður nokkuð undrandi á athugasemdum þínum minnug þess að Jóhanna nýtur trausts almennings f.o.f. fyrir það að hafa alla sína tíð barist fyrir bættum hag almennings í landinu, ekki síst þeirra sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti í samfélaginu.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur á sinni könnu málefni fatlaðra og aldraðra, almannatryggingar, atvinnu- og húsnæðismál og málefni fjölskyldna og ýmissa minnihlutahópa. Í því árferði sem við lifum nú hljóma athugasemdir þínar varðandi skort á niðurskurði á þessum sviðum ankannalega í eyrum fólks sem lætur sig velferð manna varða.

Ég óska því eftir því að þú upplýsir almenning um áherslur þínar varðandi verkefni Félags- og tryggingaráðuneytisins og gerir nákvæmlega grein fyrir því hvernig þú telur eðlilegt að skera niður á málasviði ráðuneytisins og hvaða afleiðingar þú telur að sá niðurskurður muni hafa fyrir þau málasvið og það fólk sem á allt sitt undir viðkomandi þjónustu. Ég geri ráð fyrir að þú hafir þessar tillögur á takteinum og óska eftir að þú birtir þær innan viku hér í blaðinu. Upplýsingar þessar eru afar mikilvægar fyrir okkur sem tökum afstöðu til stjórnmálaflokkanna í kjörklefunum eftir mánuð.

Með von um skjót svör.

Höfundur er læknir.




Skoðun

Sjá meira


×