Erlent

Reið hesti upp í Sívala turninn í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar
Sívali turninn í Köben.
Sívali turninn í Köben.

Danskur hestamaður bíður þess nú að sjá hvort hann verður kærður fyrir að ríða á hesti sínum upp í Sívala turninn í Kaupmannahöfn.

Það var í fyrsta skipti í 293 ár sem slíkt er gert. Sá síðasti sem reið upp í turninn var Pétur mikli Rússakeisari og það var árið 1716.

Hinn 55 ára gamli Simon Thorkelin segir að sig hafi dreymt um það í mörg ár að feta í fótspor Rússakeisara. Og hann lét af því verða snemma á laugardagsmorgun. Í óleyfi náttúrlega.

Ekki eru tröppur upp í Sívala turninn heldur breiður aflíðandi rampur. Sagt er að Kristján konungur fjórði sem lét byggja turninn sem stjörnuskoðunarstöð hafi látið gera rampinn til þess að komast upp í turninn í hestvagni sínum.

Á leiðinni upp rakst Simon Thorkelin á Jesper Vang Hansen framkvæmdastjóra turnsins, sem veit eiginlega ekki hvernig hann á að bregðast við þessu.

-Tja þetta er náttúrlega bannað, segir hann í viðtali við danska blaðið BT. -En hvað gátum við gert? Það er ekki hægt að henda heilum hesti út úr turninum. Jesper Vang sagði að hestamaðurinn Símon hafi lofað að senda sér skriflega afsökunarbeiðni og eftir það muni hann skoða málið.

Þess má geta að frá götunni og upp á útsýnispall turnsins eru 34.8 metrar. Lokið var við að reisa turninn árið 1642.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×